Sendill stal um eitt þúsund kökum

Það myndi enginn fúlsa við þessari köku? Eða er hún …
Það myndi enginn fúlsa við þessari köku? Eða er hún kannski eins og pönnukökur með rjóma eins og við þekkjum frá ömmu? Ljósmynd/ladym.com

Sendill í New York sem hafði aðgang að vöruhúsi fullu af hágæðakökum er sakaður um að hafa stolið um eitt þúsund kökum yfir fjögurra mánaða skeið. Þetta eru engar venjulega kökur því hver kostar um 90 dollara eða um 11 þúsund íslenskar krónur. BBC greinir frá. 

Hann stal kökunum og seldi öðrum birgjum. Kökurnar sem um ræðir eru frá fyrirtækinu Lady M Confections' cakes sem var stofnaði árið 2002. Fyrirtækið er þekkt fyrir svokallaðar Mille Crêpes-kökur; örþunnar pönnukökur sem staflað er fallega upp með rjóma á milli. Þessar kökur eru vinsælar hjá þekktum einstaklingum og birtast ósjaldan myndir af umræddum kökum á samfélagsmiðlinum Instagram.  

Kökuþjófurinn, David Lliviganay, sást á öryggismyndavélum við iðju sína. Brotin voru framin frá nóvember fram í febrúar á þessu ári.

Fyrr á árinu viðurkenndi hann að hafa stolið umræddum kökum og fellur dómur í máli hans síðar í þessum mánuði. Hins vegar hafa eigendur bakarísins höfðað nýtt mál á hendur honum, að því er fram kemur í frétt The New York Times.  

mbl.is