Spennu á norðurslóðum sé haldið í lágmarki

Ann Linde, ut­an­rík­is­ráðherra Svíþjóðar, Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, og …
Ann Linde, ut­an­rík­is­ráðherra Svíþjóðar, Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, og Jeppe Kof­ord, ut­an­rík­is­ráðherra Danmerkur. mbl.is/Theódór

„Samband Danmerkur og Bandaríkjanna er mjög mikilvægt því við lifum í heimi þar sem öryggisógnir herja á, ekki síst á norðurslóðum, og það er þess vegna sem við þurfum að tryggja að þar ríki friður og að spennu sé haldið í lágmarki,“ segir Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, í samtali við blaðakonu mbl.is að fundi ráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna loknum.

Fundurinn fór fram í Borgarnesi í dag og í gær og í dag þótti Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra Íslands, vænt um að fá að sýna norrænum og baltneskum kollegum sínum heimabæinn.

Áhugi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á að kaupa Grænland er líklega mörgum enn ofarlega í huga og er því ekki úr vegi að spyrja Kofod út í það, sem og aukna viðveru Bandaríkjahers á norðurslóðum, svo sem á Íslandi, og hvort hann telji það merki um aukna spennu á svæðinu.

„Nei, ég held ekki að þetta sé merki um aukna spennu á norðurslóðum. Frekar held ég að það sé merki um hið nána samstarf sem Danmörk og Bandaríkin eiga. Kaup á Grænlandi eru ekki einu sinni til umræðu. Það kemur ekki til greina af hálfu grænlensku þjóðarinnar og grænlenska þingsins, og að sjálfsögðu ekki af hálfu Danmerkur,“ segir Kofod og leggur áherslu á að styrkja þurfi enn samstarfið á milli allra landa Atlantshafsins á næstu árum.

Hvað stærstu verkefni norðurskautsráðsins varðar segir Kofod meðal annars mikilvægt að skoða hvernig hægt sé að takast á við loftslagsbreytingar og aukin viðskiptaumsvif á svæðinu.

„Í heimi þar sem baráttan um völd fer harðnandi og réttarríkið á undir högg að sækja er mikilvægt að við pössum upp á þann strúktúr sem við höfum byggt upp í norðurskautsráðinu og að alþjóðalög séu í hávegum höfð,“ segir Kofod og segir að Ísland sé sérstaklega vel í stakk búið til að sinna forystu í ráðinu með þetta að leiðarljósi. „Við vorum öll sammála á fundinum um að þessi friðsamlega alþjóðlega samvinna sé sú leið sem við viljum fara.“

En stingur aukin viðvera Bandaríkjahers á Íslandi ekki í stúf við áform um spennulausar og friðsamlegar norðurslóðir?

„Nei, ég held að öryggi þurfi að tryggja samhliða aukinni starfsemi annarra ríkja, svo sem Rússlands og Kína, á norðurslóðum. Við þurfum að tryggja að okkar öryggi sé óskert og að Atlantshafssamstarfið sé sterkt. Það þarf þó að gera þannig að það auki ekki á spennu, heldur dragi frekar úr henni, og tryggi okkar eigið fullveldi og það réttarríki sem við tileinkum okkur,“ segir Kofod að lokum.

mbl.is