Tíu létust í árás talibana á sjúkrahús

Aukinn þungi hefur færst í árásir talibana upp á síðkastið …
Aukinn þungi hefur færst í árásir talibana upp á síðkastið eftir að friðarviðræður þeirra við stjórnvöld í Bandaríkjunum fóru út um þúfur fyrr í mánuðinum. AFP

Að minnsta kosti tíu létust og tugir særðust þegar bílsprengja sprakk fyrir utan spítala í borginni Qalat í Zabul-héraði í Afganistan í morgun. Flestir hinna látnu eru læknar eða sjúklingar að sögn staðarmiðla. 

Talibanar hafa lýst árásinni á hendur sér og segja henni hafa verið beint gegn leyniþjónustunni, en bækistöðvar afgönsku leyniþjónustunnar eru í sömu byggingu og héraðssjúkrahúsið. 

Aukinn þungi hefur færst í árásir talibana upp á síðkastið eftir að friðarviðræður þeirra við stjórnvöld í Bandaríkjunum fóru út um þúfur fyrr í mánuðinum. Búist er við að árásirnar harðni enn frekar næstu vikur í aðdraganda kosninga sem fram fara í Afganistan í lok september. 

Samkvæmt rannsókn á vegum breska ríkisútvarpsins sem birt var fyrr í vikunni létust 74 á dag að meðaltali í ágúst í árásum í landinu. Alls féllu 2.307 manns í 611 árásum í síðasta mánuði.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert