Beittu ítrekað táragasi gegn mótmælendum

„Ekki snerta lífeyrinn minn“ stendur á skiltinu sem þessi gulvestungur …
„Ekki snerta lífeyrinn minn“ stendur á skiltinu sem þessi gulvestungur hélt á lofti í mótmælum í París dag. AFP

Lögregla í Frakklandi beitti ítrekað táragasi og vatnsbyssum til að brjóta upp mótmæli í borginni Toulouse í suðurhluta landsins í dag, en tæplega 1.000 gulvestungar höfðu komið þar saman.

Einn hið minnsta var handtekinn  á mótmælunum sem hófust síðdegis í dag. Fremstir í flokki fóru mótmælendur með risastórt skilti með áletruninni „Erum leið á að þrauka. Við viljum lifa“. Þá kveiktu mótmælendur í sólskyggni fyrir utan McDonalds-skyndibitastað í borginni.

Í París bættu hins vegar nokkrir gulvestungar sér í raðir fólks sem mótmælti loftslagsvánni, en bann hefur verið lagt við mótmælum við Champs Elyssee-breiðgötuna í borginni eftir að upp úr sauð í mótmælum í desember í fyrra.

Franska stjórnin kynnti í vikunni fjárlagafrumvarp næsta árs þar sem gert er ráð fyrir níu milljarða evra skattalækkunum fyrir heimilin í landinu. Inni í þeirri upphæð eru fimm milljarða evra skattalækkanir sem Emmanuel Macron Frakklandsforseti hét  mótmælendum í ræðu sem hann hélt í vor.

mbl.is