Trump sakar demókrata um valdarán

Donald Trump Bandaríkjaforseti sakar demókrata um valdarán vegna framgöngu þeirra …
Donald Trump Bandaríkjaforseti sakar demókrata um valdarán vegna framgöngu þeirra í rannsókn fulltrúardeildar þingsins á embættisfærslu hans og mögulega ákæru. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sakar demókrata um að leggja starfsfólk utanríkisráðuneytisins í einelti í tengslum við rannsóknina. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti fordæmir rannsókn fulltrúardeildar þingsins á embættisfærslu hans og mögulega ákæru í kjölfar þess sem komið hefur fram um símtal hans við Volodom­ir Zelenskí Úkraínu­for­seta þar sem hann óskaði eftir því að hann tæki Joe Biden til rann­sókn­ar. Trump segir framgöngu demókrata í málinu á við valdarán. 

„Ég er að komast að þeirri niðurstöðu að það sem er að eiga sér stað er ekki ákæruferli, heldur VALDARÁN,“ skrifar forsetinn meðal annars á Twitter og bætir við að ætlunin sé að taka völdin af fólkinu í landinu, taka atkvæði þess, frelsi, réttinn til að bera skotvopn, trúna, herinn, landamæramúrinn og „öll þau réttindi sem guð gefur því sem ríkisborgurum Bandaríkjanna“.

Færsla Trumps kemur í framhaldi af færslu Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á sama miðli, þar sem hann sakar demókrata um að leggja starfsfólk utanríkismálaráðuneytisins í einelti í tengslum við rannsókn á embættisbrotum Trumps. 

Pompeo segir það ógerlegt að boða fimm starfsmenn ráðuneytisins á fund vegna rannsóknar á embættisbrotum forsetans. „Ég hef áhyggjur af því að hluta af kröfu nefndarinnar sé einungis hægt að skilja sem tilraun til þess að ógna, leggja í einelti og koma illa fram við æruverðuga starfsmenn utanríkisráðuneytisins,“ segir meðal annars í færslu Pompeo.  

Demókratar hafa brugðist við færslu Pompeo og segja hann reyna að hindra rannsóknina með óviðeigandi og jafnvel ólögmætum hætti. Pompeo segist hins vegar ætla að gera hvað hann getur til að stöðva eða að minnsta kosti tefja vitnisburð starfsmannanna. 





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert