Ætla að „hreinsa upp“ hryðjuverkamenn

AFP

Utanríkisráðherra Tyrklands, Mevlut Cavusoglu, segir að Tyrkir ætli sér að „hreinsa upp“ hryðjuverkamenn í Sýrlandi en líkt og fram hefur komið hafa Bandaríkjamenn lýst því yfir að þeir muni ekki setja sig upp á móti hernaði Tyrkja gegn hersveitum Kúrda í Sýrlandi.

Cavusoglu skrifar á Twitter í morgun að tyrknesk yfirvöld séu staðráðin í að tryggja öryggi Tyrklands og það verði gert með því að „hreinsa upp“ hryðjuverkamenn á þessu svæði.

Tyrknesk yfirvöld hafa ítrekað hótað því að hefja hernað í norðurhluta Sýrlands til þess að þvinga hersveitir Kúrda frá landamærum Tyrklands. Þannig verði hægt að koma upp „öruggum svæðum“ í Sýrlandi sem Tyrkir ætla að senda flóttafólk inn á. Allt að þrjár milljónir Sýrlendinga. 

Bandarísk yfirvöld hófu að flytja hermenn sína á brott frá tyrknesku landamærunum í Sýrlandi í morgun í kjölfar ákvörðunar Tyrkja. 

mbl.is