Tyrkir undirbúa hernað í Sýrlandi

AFP

Tyrkland undirbýr hernað í norðurhluta Sýrlands og Bandaríkjaher mun ekki styðja aðgerðir Tyrkja þar. Bandarískir hermenn verða fluttir frá landamærum Tyrklands og Norður-Sýrlandi, samkvæmt tilkynningu frá bandaríska forsetaembættinu. Um er að ræða bandaríska hermenn sem tóku þátt í stríðinu gegn vígasveitum Ríkis íslams og höfðu betur. Því sé ekki lengur þörf á veru bandarískra hermanna þar lengur, samkvæmt yfirlýsingu bandaríska forsetaembættisins.

Tilkynning Hvíta hússins var send út í gærkvöldi eftir símtal forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, og forseta Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan. Í yfirlýsingunni eru ríki eins og Frakkland, Þýskaland og fleiri ríki Evrópu gagnrýnd fyrir að hafa ekki tekið við borgurum sinna landa sem hafa tekið þátt í starfsemi Ríkis íslams og verið handteknir í norðurhluta Sýrlands.

AFP

Tyrkir munu nú bera ábyrgð á öllum þeim vígamönnum sem hafa verið handteknir undanfarin tvö ár af bandarískum hermönnum. Um er að ræða liðsmenn Ríkis íslams sem hafa verið handteknir í stríðinu gegn samtökunum í Sýrlandi. 

Erdogan og Trump sammæltust í símtalinu í gær um að hittast í Washington í næsta mánuði þar sem rætt verður um „öruggt svæði“ í Norður-Sýrlandi. 

Kúrdar í Sýrlandi vara við hernaði Tyrkja í landinu og segja að ef af honum verði megi búast við mikilli fjölgun nýrra liðsmanna Ríkis íslams í landinu.

mbl.is