Mjög mjótt á mununum í Kanada

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada og leiðtogi Frjálslynda flokksins, og Andrew …
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada og leiðtogi Frjálslynda flokksins, og Andrew Scheer, leiðtogi Íhaldsflokksins, takast á um málefnin. AFP

Miðað við skoðanakannanir bendir flest til þess að næsta ríkisstjórn Kanada verði minnihlutastjórn. Frjálslyndi flokkurinn, undir forystu Justins Trudeau forsætisráðherra, og helsti keppinauturinn, Íhaldsflokkurinn undir forystu Andrews Scheer, mælast með nánast jafnmikið fylgi samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar.

Hins vegar er fylgi hvorugs flokksins nógu mikið til þess að líklegt sé að það skili sér í meirihluta þingsæta. Þannig mælast bæði Frjálslyndi flokkurinn og Íhaldsflokkurinn með 31% fylgi en kosið verður til þings 21. október. Trudeau sigraði í síðustu þingkosningum sem fram fóru árið 2015 og fékk þá tæplega 40% fylgi.

Kanadíska þinghúsið í Ottawa.
Kanadíska þinghúsið í Ottawa. AFP

Myndaði Trudeau meirihlutastjórn í kjölfar kosninganna sem hefur verið við völd síðan. Íhaldsflokkurinn hefur í millitíðinni skipt um leiðtoga og tók Scheer við flokknum árið 2017. Miðað við kannanir er helsta von Trudeaus að flokkur hans fái meira fylgi en Íhaldsflokkurinn og geti þar með myndað minnihlutastjórn.

Skoðanakönnunin var birt í gærkvöldi og var gerð af Leger-stofnuninni. Samantekt sjónvarpsstöðvarinnar CBC á síðustu könnunum bendir til þess að Frjálslyndi flokkurinn njóti fylgis 33,9% kjósenda en Íhaldsflokkurinn 33%.

Nýi lýðræðisflokkurinn mælist með 18% fylgi samkvæmt könnun Leger-stofnunarinnar og Græningjar með 11%. Lokaspretturinn í kosningabaráttunni er hafinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert