Vopnasölubönn og hótanir haggi ekki Tyrkjum

„Þeir sem telja sig geta látið Tyrklandi snúast hughvarf með …
„Þeir sem telja sig geta látið Tyrklandi snúast hughvarf með þessum hótunum hafa alrangt fyrir sér,“ sagði Erdogan í ræðu, sem sjónvarpað var í Tyrklandi í dag. AFP

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti segir að hótanir um viðskiptaþvinganir og vopnasölubönn einstakra ríka á hendur Tyrkjum muni ekki verða til þess að fallið verði frá hernaðaraðgerðum gegn Kúrdum í Sýrlandi.

Hann og Angela Merkel Þýskalandslandskanslari ræddust við í síma í dag og þar lagði Merkel að Erdogan um að hætta hernaðinum „tafarlaust“, samkvæmt yfirlýsingu frá þýskum stjórnvöldum. Bæði Þjóðverjar og Frakkar og fleiri Evrópuríki hafa tekið ákvörðun um að hætta að selja tyrkneskum stjórnvöldum vopn eða annan búnað sem nýst gæti í árásarstríði þeirra í Sýrlandi.

Ávarpaði þjóðina

„Þeir sem telja sig geta látið Tyrklandi snúast hughvarf með þessum hótunum hafa alrangt fyrir sér,“ sagði Erdogan í ræðu sem sjónvarpað var í Tyrklandi í dag. Þar sagði hann einnig að hann hefði rætt við Merkel síðasta miðvikudag um vopnasölubannið.

„Ég sagði henni að skýra þetta fyrir mér. Erum við virkilega bandamenn í Atlantshafsbandalaginu, eða hefur hryðjuverkahópurinn [Frelsisher Kúrda, YPG] fengið inngöngu í NATÓ án minnar vitundar?“ sagði Erdogan.

Tyrkir skilgreina Frelsisher Kúrda, sem barist hefur gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við Ríki íslams í Sýrlandi undanfarin ár, sem hryðjuverkasamtök. Erdogan þverneitaði fyrir það að taka þátt í nokkurskonar samningaviðræðum við Kúrda, með milligöngu Evrópuríkja eða annarra.

„Hvenær sást þú ríki setjast niður við sama borð og hryðjuverkasamtök?“ spurði Erdogan í dag og ljóst að ekki er útlit fyrir að Tyrkir láti af hernaði sínum gegn Kúrdum í bráð.

Tyrkneskur hermaður horfir yfir landamæri Tyrklands og Sýrlands í dag.
Tyrkneskur hermaður horfir yfir landamæri Tyrklands og Sýrlands í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert