„Glæpir spyrja ekki um kyn“

„Glæpir spyrja ekki um kyn“ er yfirskrift nýjar herferðar Europol …
„Glæpir spyrja ekki um kyn“ er yfirskrift nýjar herferðar Europol þar sem athygli er vakin á mest eftirlýstu glæpamönnum og glæpakvendum álfunnar. Ljósmynd/Europol

„Glæpir spyrja ekki um kyn,“ segir í nýrri herferð Europol þar sem athygli er vakin á mest eftirlýstu glæpamönnum og glæpakvendum heims. 

21 glæpamaður frá mismunandi aðildarríkjum Evrópusambandsins prýðir listann og hefur Europol sett upp nýjan gagnagrunn sem minnir einna helst á tölvuleik frá CCP þar sem myndir af hinum eftirlýstu eru sveipaðar mikilli dulúð og líta út fyrir að koma frá fjarlægum plánetum. Þegar hulunni er svo svipt af þeim kemur glæpakvendið, eða glæpamaðurinn, í ljós. 

Fólkið er eftirlýst fyrir ýmsar sakir, allt frá morðum til fjársvika. Europol óskar eftir upplýsingum um fólkið í þeirri von að hafa uppi á þeim. Hægt er að senda nafnlausa ábendingu á heimasíðu Europol

Hér má sjá hvernig hulunni er svipt af einum af …
Hér má sjá hvernig hulunni er svipt af einum af mest eftirlýstu glæpamönnum Evrópu, sem í þessu tilviki er hin þrítuga Kristi Amberg, sem er eftirlýst í Eistlandi sökum eiturlyfjasmygls. Ljósmynd/Europol

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Europol notar óhefðbundnar leiðir til að vekja athygli á eftirlýstum glæpamönnum. Þegar heimsmeistaramótið í knattspyrnu fór fram síðasta sumar hoppuðu sam­tök lög­reglu­manna í ESB og ná­granna­ríkj­um sem sér­hæfa sig í að hafa uppi á og hand­sama flótta­menn (EN­FAST) hafa á HM-vagn­inn og stofnuðu sér­staka „glæpa­manna­deild“.

Glæpakvendum hefur fjölgað

Fjöldi rannsókna hefur verið gerður á hvaða hlutverki kyn gegnir þegar kemur að glæpum. Flestar rannsóknir einblína hins vegar á kyn þolenda ekki gerenda. 

Staðreyndin er sú að konum sem gerendum í glæpastarfsemi hefur fjölgað. Tækniframfarir og breyting á félagslegum venjum, svo sem aukin þátttaka kvenna á hinum almenna vinnumarkaði, eru meðal mögulegra skýringa á að konum í glæpum hefur fjölgað. 

Rannsakendur telja mikilvægt að glæpsamlegt atferli kvenna verði rannsakað frekar og tekið inn í myndina við aðgerðir sem fyrirhugaðar eru til að sporna gegn glæpum á heimsvísu.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert