Indverjar geti lært af Kína

Gríðarleg mengun er í New Delhi.
Gríðarleg mengun er í New Delhi. AFP

Undanfarna daga hefur höfuðborg Indlands, New Delhi, verið þakin þoku sem rekja má til mengunar þar í landi. Hafa nokkrir breskir fjölmiðlar jafnvel gengið svo langt að líkja borginni við „gasklefa“. Höfuðborgin er þó ekki einsdæmi þar í landi, en á Indlandi má finna 14 af 15 mest menguðu borgum heims. 

Í kínverskum fjölmiðlum hefur talsvert verið fjallað um framangreind mengunarmál á Indlandi. Hafa fjölmargir þarlendir fræðimenn lagt til að Indland dragi lærdóm af þeim mikla árangri sem náðst hefur í Kína.

Ekki þarf að líta mörg ár aftur í tímann til að finna myndir og mælingar sem sýna óheyrilega mengun í fjölmörgum af borgum Kína. Með miklu átaki hefur stjórnvöldum í Kína tekist að bregðast hratt við og hefur á ríflega fimm árum tekist að draga allverulega úr mengun ásamt því að viðhalda ríflega 6% árlegum hagvexti.

Gífurleg mengun á Indlandi

Á sama tíma hefur lítið sem ekkert verið gert til að draga úr mengun á Indlandi. Samkvæmt upplýsingum frá bandaríska sendiráðinu á Indlandi er mengunin í landinu ríflega nítjánfalt meiri en eðlilegt þykir samkvæmt stöðlum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO).

Erfitt er að segja til um hvort framangreind stórveldi muni koma til með að vinna saman í bráð, en svo virðist sem kínversk stjórnvöld séu með útrétta hjálparhönd. Þá er ljóst að leggja þarf aukna áherslu á málaflokkinn á Indlandi ef eitthvað á að breytast.

mbl.is