Annar „hákarl“ segir af sér í Namibíu

James Hatuikulipi hefur sagt af sér stjórnarformennsku í Fischor, ríkisreknu ...
James Hatuikulipi hefur sagt af sér stjórnarformennsku í Fischor, ríkisreknu sjávarútvegsfyrirtæki Namibíu. Ljósmynd af vef Seaflower

James Hatuikulipi, einn þeirra þriggja sem kallaðir voru „hákarlarnir“ í umfjöllun fréttaskýringarþáttarins Kveiks um Samherjaskjölin, er hættur sem stjórnarformaður sjávarútvegsfyrirtækisins Fishcor í Namibíu.

Forsíða Namibian Sun á morgun

Namibíska dagblaðið Namibian Sun segir frá þessu á forsíðu sinni á morgun, en blaðið hefur nú þegar birt forsíðuna á vefnum.

Hatuikulipi þessi er frændi Tamson Hatuikulipi, en það er tengdasonur Bernhards Esau fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, sem hrökklaðist af ráðherrastóli vegna umfjöllunar um Samherjaskjölin rétt eins og Sacky Shanghala, sem var dómsmálaráðherra. Hákarlarnir þrír hafa nú allir vikið úr störfum sínum vegna Samherjamálsins.

Samkvæmt umfjöllun Kveiks og Stundarinnar upp úr Samherjaskjölunum úthlutaði Esau hrossamakrílkvóta til Fischor og kvótinn síðan seldur áfram til Samherja, „á sannkölluðum vildarkjörum“ eins og segir í umfjöllun Kveiks.

Á forsíðu Namibian Sun á morgun kemur fram að Mike Nghipunya sitji enn sem framkvæmdastjóri Fischor, sem er ríkisrekið sjávarútvegsfyrirtæki landsins, en áður hafði verið greint frá því í namibískum miðlum að Leon Jooste, ráðherra sem fer með málefni ríkisfyrirtækja í landinu, hafi farið fram á að þeim yrði báðum vikið frá störfum vegna málsins.

mbl.is