Ryanair gert að afnema handfarangursgjöld

Samkvæmt skilmálum Ryanair mega farþegar aðeins taka með sér handfarangur …
Samkvæmt skilmálum Ryanair mega farþegar aðeins taka með sér handfarangur sem kemst undir sætið fyrir framan þá, án þess að þurfa að greiða aukagjald. AFP

Spænskur dómstóll hefur gert flugfélaginu Ryanair að endurgreiða viðskiptavini sem var rukkaður sérstaklega fyrir að mæta með handfarangurstösku í flug sitt frá Madríd til Brussel án þess að hafa verið með þar til gerðan miða.

Þá er flugfélaginu jafnframt gert að fjarlægja umrædda klausu úr skilmálum sínum og hætta að rukka sérstaklega fyrir handfarangur. 

Um er að ræða svonefndan viðskiptadómstól og er ekki hægt að áfrýja niðurstöðum hans, að því er fréttastofa AFP greinir frá.

Samkvæmt skilmálum Ryanair mega farþegar aðeins taka með sér handfarangur sem kemst undir sætið fyrir framan þá, án þess að þurfa að greiða aukagjald. Vilji þeir ferðast með stærri handfarangur, svo sem handfarangurstösku á hjólum, sem má vega allt að 10 kíló, verða þeir hins vegar að greiða fyrir það sérstaklega.

Ryanair segir dóminn engin áhrif hafa

Í úrskurði dómstólsins segir að skilmálar flugfélagsins brjóti í bága við spænsk neytendalög.

Flugfélagið írska hefur hins vegar sagt að úrskurðurinn muni ekki hafa áhrif á farangursskilmála þess og segir dómstólinn hafa misskilið rétt félagsins til þess að kveða sjálft á um reglur um stærð handfarangurs.

mbl.is