Hengdur fyrir smygl á 17 grömmum af heróíni

Singapore. Lítið er um glæpi í ríkinu og lögum er …
Singapore. Lítið er um glæpi í ríkinu og lögum er fylgt hart eftir. AFP

Sú ákvörðun yfirvalda í Singapore að láta hengja malasískt burðardýr, þrátt fyrir beiðni frá malasískum stjórnvöldum um að gera það ekki, hefur vakið mikla gagnrýni.

Maðurinn Abd Helmi Ab Halim var dæmdur til dauða árið 2017 fyrir að hafa flutt með sér 16,56 grömm af heróíni frá Malsíu. Segja gagnrýnendur refsinguna of harkalega fyrir lágt sett burðardýr.

Singapore er þekkt fyrir lága glæpatíðni og að hart sé tekið á lagabrotum, en þarlend yfirvöld fullyrða að dauðarefsingunni fylgi fælingarmáttur.

„Þetta var lágt sett burðardýr og magnið sem hann á að hafa flutt var pínulítið,“ sagði N. Surendran, lögfræðingur hjá malasískum mannréttindasamtökum. Refsingin hafi verið í engu samræmi við glæpinn.

Fyrr í vikunni hafði dómsálaráðherra Malasíu Liew Vui Keong samband við yfirvöld í Singapore og bað þau að endurskoða ákvörðun sína um að taka Halim af lífi. „Réttlæti þarf að milda með miskunn og ég bið Singapore um að gera það,“ sagði ráðherrann.

Dauðarefsingu er líka beitt í Malasíu, en stjórnin sem þar tók við völdum á síðasta ári hefur sagst ætla að mýkja stefnu sína í þessum efnum með því að afnema skyldubundna dauðarefsingu gegn sumum glæpum og hefur öllum aftökum verið tímabundið frestað.

Yfirvöld í Singapore sögðu að aftökunni lokinni að þau væru í fullum rétti að beita dauðarefsingu gegn þeim sem brytu gegn fíkniefnalöggjöf ríkisins og þau ætluðu öðrum ríkjum að virða löggjöf sína, hverrar þjóðar sem brotamennirnir væru.

Amnesty International segir 13 hafa verið tekna af lífi í Singapore á síðasta ári og voru 11 dómanna vegna fíkniefnabrota.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert