Þjóðernissinnar í sókn í Svíþjóð

Félagar í Norrænu andspyrnuhreyfingunni halda á fánum á torgi í ...
Félagar í Norrænu andspyrnuhreyfingunni halda á fánum á torgi í miðborg Stokkhólms. Hreyfingin hefur fært sig upp á skaftið í Svíþjóð. AFP

Nýlegar skoðanakannanir í Svíþjóð benda til þess að flokkur þjóðernissinna, Svíþjóðardemókratarnir, hafi sótt í sig veðrið og sé nú fylgismesti flokkur landsins. Er það einkum rakið til fjölgunar sprengju- og skotárása glæpahópa síðustu mánuði og deilna um innflytjendamál.

Stefan Löfven, forsætisráðherra og leiðtogi Sósíal-demókrata, virðist hafa misst tiltrú margra Svía í baráttunni við glæpahópana ef marka má könnun sem birt var eftir sjónvarpsviðtal við hann um málið á sunnudaginn var.

Viðtalið var sýnt í fréttaþætti þar sem fjallað var um ofbeldi glæpahópa sem beita nú sprengjum oftar en áður og hafa gert um 300 skotárásir á árinu, flestar í tengslum við gengjastríð. Skömmu fyrir viðtalið var fimmtán ára piltur skotinn til bana í veitingahúsi í Malmö og jafnaldri hans var í lífshættu á sjúkrahúsi vegna skotsára. Sænska dagblaðið Dagens Nyheter segir að dauðsföllum meðal karlmanna á aldrinum 20-29 ára vegna skotárása hafi fjölgað um 200% í Svíþjóð milli áranna 2014 og 2018. Dauðsföllin af völdum skotárása í þessum aldurshópi eru algengari í Svíþjóð miðað við höfðatölu en í öðrum löndum Evrópusambandsins, m.a. tíu sinnum tíðari en í Þýskalandi.

Löfven var m.a. spurður hvort hann teldi að Svíþjóð stæði frammi fyrir sama vandamáli ef innflytjendum hefði ekki stórfjölgað í landinu. „Já, ef efnahagslegi og félagslegi ójöfnuðurinn hefði verið sá sami, er það óbifanleg sannfæring mín,“ svaraði forsætisráðherrann.

Svíþjóð hefur verið á meðal Evrópulanda sem hafa tekið á móti flestum flóttamönnum og forsætisráðherrann var spurður um fjölgun glæpa í hverfum þar sem margir innflytjendur frá fátækum löndum búa. „Skipulögð glæpastarfsemi tengist félagslegri einangrun og ég hef lengi bent á það. Þetta snýst um skort á störfum og skóla sem gegna ekki hlutverki sínu. Þetta getur komið fyrir hvern sem er. Þetta snýst ekki um það hvar fólkið er fætt,“ sagði Löfven. „Væri fólk sem fæddist í Svíþjóð sett í sömu aðstæður væri útkoman sú sama.“

Forsætisráðherrann sagði að svarið við vandamálinu væri að efla lögregluna, setja ný lög og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða í hverfunum þar sem glæpunum hefur fjölgað. „Ungmennin eiga að sjá foreldrana fara í vinnuna og að það sé eðlilegt að vera í vinnu. Og börnin eiga að ganga í skóla,“ sagði hann.

„Hörmuleg“ frammistaða

Svör forsætisráðherrans sættu gagnrýni meðal vinstrimanna og hægrimanna sem segja þau hafa verið óskýr og loðin. „Forsætisráðherra má ekki koma fram svona illa undirbúinn og með svo slæma framsetningu,“ sagði Lena Mellin, stjórnmálaskýrandi dagblaðsins Aftonbladet sem styður Sósíaldemókrata. Hún sagði að frammistaða forsætisráðherrans í viðtalinu hefði verið „hörmuleg“.

Göran Eriksson, stjórnmálaskýrandi Svenska Dagbladet , sagði að forsætisráðherrann hefði í reynd vitað hvað í stefndi. Löfven hefði varað við auknu ofbeldi glæpahópa árið 2015 en vandamálið hefði haldið áfram að versna eftir það og stjórninni ekki tekist að stemma stigu við ofbeldisglæpunum.

„Eru þeir sem eru atvinnulausir í Svíþjóð einfaldlega berskjaldaðri, lifa þeir við svo miklu verri efnahagslegar aðstæður en atvinnulausir í öðrum ESB-löndum að þeir leiðast út í alvarlega glæpastarfsemi? Varla,“ sagði blaðið Sydsvenskan sem gefið er út í Malmö.

„Þetta dugar ekki,“ sagði leiðarahöfundur dagblaðsins Expressen . „Sú afstaða Löfvens að þróunin í glæpastarfseminni í Svíþjóð tengist á engan hátt innflytjendastefnunni er til marks um furðulega vanþekkingu,“ sagði Håkan Boström, leiðarahöfundur Göteborgs-Posten .

Þjóðernissinnar með mest fylgi

Expressen hefur birt skoðanakönnun sem bendir til þess að 66% sænskra kjósenda telji að Löfven hafi ekki staðið sig vel í baráttunni gegn ofbeldi glæpahópa og skipulagðri glæpastarfsemi. Þegar þátttakendurnir voru spurðir hverjum þeir treystu best til að tryggja að haldið yrði uppi lögum og reglu í landinu nefndu flestir leiðtoga Svíþjóðardemókratanna, Jimmy Åkesson, eða 23% aðspurðra. 15% nefndu Löfven og 16% Ulf Kristersson, leiðtoga hægriflokksins Moderaterna.

Expressen hefur eftir Toivo Sjörén, sem stjórnaði könnuninni, að Löfven hafi fengið „falleinkunn“ í málinu. „Það er almennt mikil óánægja með frammistöðu hans, bæði meðal karla og kvenna og allra aldurshópanna.“

Áður höfðu skoðanakannanir bent til þess að Svíþjóðardemókratarnir yrðu stærsti flokkur landsins ef kosið væri nú og er það einkum rakið til óánægju kjósenda vegna ofbeldis glæpahópanna. Samkvæmt könnun rannsóknafyrirtækisins Demoskop fyrir Aftonbladet er fylgi Svíþjóðardemókratanna 24% og þetta er í fyrsta skipti sem flokkurinn mælist stærstur í könnunum fyrirtækisins. 22,2% sögðust styðja Sósíaldemókrata og það er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur fengið í könnunum Demoskop. Aðeins 17,8% styðja Moderaterna, ef marka má könnunina. Hún bendir til þess að fylgi Svíþjóðardemókrata hafi aukist á kostnað Sósíaldemókrata og Moderaterna. Sósíaldemókratar hafa einnig misst fylgi til Vinstriflokksins, sem er með 9,8%.

Nánar má lesa um þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »