Prentaramistök kostuðu rúma milljón evra

Upphaflegar mælingar vegna prentarakaupanna tóku ekki með í myndina að …
Upphaflegar mælingar vegna prentarakaupanna tóku ekki með í myndina að prentarinn þyrfti 3,1 metra lofthæð. Ljósmynd/Wikipedia

Rannsókn er nú hafin á því hvernig starfsfólk írska þingsins gat eytt rúmri milljón evra í prentara sem var of stór til að passa inn í þinghúsið. BBC greinir frá.

Prentarinn, sem er 2,1 metri á hæð og 1,9 metrar á breidd, var keyptur í fyrra og kostaði þá 808.000 evrur (tæpar 110 milljónir kr.). Þegar starfsfólk áttaði sig svo á því að prentarinn kæmist ekki inn í rýmið sem honum var ætlað var 236.000 evrum (um 32 milljónum kr.) til viðbótar eytt í að rífa niður veggi og koma fyrir styrktarbitum svo hægt væri að hýsa prentarann.

Meðan á framkvæmdum stóð var prentarinn settur í geymslu og nam geymslukostnaðurinn 2.000 evrum á mánuði.

Írska dagblaðið Irish Times greindi frá málinu um helgina og segir skjöl sýna að upphaflegar mælingar hafi ekki tekið með í myndina að prentarinn þyrfti 3,1 metra lofthæð. Þá eru samskipti milli embættismanna sögð gefa í skyn að þeir hafi talið að ekki væri hægt að skila prentaranum vegna ákvæða í kaupsamningnum.

Prentaranum sem var fyrst afhentur í desember í fyrra var svo loks komið fyrir í Oireachtas, írska þinginu, í lok september. Talið er þó að hann verði þó ekki kominn í fulla notkun fyrr en á næsta ári.

mbl.is