Önnur yngri systranna látin

Tromsø í fylkinu Troms í Norður-Noregi. Þrjár mæðgnanna fjögurra sem …
Tromsø í fylkinu Troms í Norður-Noregi. Þrjár mæðgnanna fjögurra sem fundust í sjónum undir kvöld á mánudag eru nú látnar og sú fjórða og yngsta, eins og hálfs árs, er enn í lífshættu á Ríkissjúkrahúsinu í Ósló. Íbúar Tromsø eru harmi slegnir en móðir stúlknanna er grunuð um manndráp og tilraun til manndráps. Hún lést sjálf seint á mánudagskvöldið. Ljósmynd/Wikipedia.org/Svein-Magne Tunli

Fjögurra ára gömul stúlka, ein þriggja systra sem fundust í sjónum við Fagereng í Tromsø í Noregi ásamt móður þeirra á mánudagskvöld, lést á Ríkissjúkrahúsinu í Ósló í gærkvöldi eftir að hafa barist þar fyrir lífi sínu síðan hún og yngsta systirin, eins og hálfs árs, voru fluttar þangað frá Tromsø snemma á þriðjudagsmorgun.

„Hún var lífshættulega þungt haldin og sætti gjörgæslu síðan á mánudag. Lögreglan mun fara fram á krufningu svo ákvarða megi dánarorsök. Aðstandendum hefur verið tilkynnt um andlátið,“ segir Gøril Lund, lögmaður lögreglunnar í Tromsø, við norska ríkisútvarpið NRK. Þegar er ljóst að elsta systirin drukknaði en lík móður þeirra verður krufið í dag. 

Íbúar Tromsø hafa verið harmi slegnir síðan þetta voveiflega mál kom upp undir kvöld á mánudag þegar vegfarandi hafði samband við lögreglu og tilkynnti um barnavagn í flæðarmálinu og greinileg fótspor frá honum út í sjó. Allt tiltækt björgunarlið var sent á vettvang eins og mbl.is greindi frá en fyrstu lögreglumenn sem komu á staðinn óðu út í sjó og höfðu komið mæðgunum fjórum á þurrt skömmu síðar.

Á þriðjudagsmorgun tilkynnti lögregla á blaðamannafundi að móðir systranna væri grunuð um manndráp og tilraun til manndráps og er málið nú rannsakað sem sakamál. Tore Pedersen hefur verið skipaður verjandi móðurinnar látnu þar sem grunur í hennar garð hefur verið skjalfestur með því sem kallað er siktelse í norskum rétti og er forsenda þess að hægt sé að gefa út ákæru í sakamálum. Svo verður þó ekki gert í þessu máli.

„Refsiábyrgð fellur niður við andlát grunaða svo þetta mál verður lagt niður,“ útskýrir Pedersen í samtali við norska dagblaðið VG, „en það er hagur allra að málið verði upplýst svo gerlega sem verða má,“ segir hann enn fremur og að forsendur þess gruns sem lögregla hefur lagt fram skjallega verði nú rannsakaðar svo hægt verði að loka málinu sem upplýstu.

Minningarstund um elstu systurina var haldin í grunnskóla hennar á þriðjudaginn og nú um helgina fer fram minningarstund í leikskóla stúlkunnar sem lést í gærkvöldi, upplýsir Berit Wassmyr, forstöðumaður leikskólasviðs Tromsø.

Ástand yngstu systurinnar er enn tvísýnt og liggur hún á gjörgæsludeild Ríkissjúkrahússins þar sem faðir þeirra er einnig staddur en hann hefur stöðu vitnis í málinu. Erik Ringberg, réttargæslulögmaður föðurins og systranna, segir málið nú hafa tekið enn harmrænni stefnu fyrir skjólstæðing sinn eftir að hann missti aðra dóttur í gær. „Ég reyni að hlúa að honum svo sem mér er framast unnt og svara þeim spurningum sem brenna á honum,“ segir Ringberg við NRK.

NRK (dánarorsök elstu systurinnar)

VG (andlátið í gærkvöldi)

mbl.is