Segir Skota „fangelsaða“ innan Bretlands

Nicola Sturgeon, til hægri, og þingkonan Margaret Ferrier stilla sér …
Nicola Sturgeon, til hægri, og þingkonan Margaret Ferrier stilla sér upp fyrir sjálfu að loknum þingkosningunum. AFP

Skotar „mega ekki vera fangelsaðir innan sambandsins gegn sínum vilja“ af breskum stjórnvöldum. Þetta segir Nicola Sturgeon, formaður Skoska þjóðarflokksins.

Hún sagði í samtali við BBC að gott gengi flokksins í þingkosningunum veitti sér umboð til að halda nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands.

Breskir ráðherrar eru mótfallnir slíkum hugmyndum og telur Michael Gove að virða eigi þjóðaratkvæðagreiðsluna frá árinu 2014.

Sturgeon sagði að ef Bretland ætlaði að halda áfram sem samband margra þjóða „gæti það aðeins verið með samþykki“.  

Hún bætti við að það væri „algjörlega rangt“ af bresku ríkisstjórninni að halda að með því að segja nei við þjóðaratkvæðagreiðslu væri málinu þar með lokið. „Þetta er grundvallarmál sem snýst um lýðræði – það er ekki hægt að halda Skotlandi í sambandinu gegn vilja þess.“

mbl.is