Sigur í #MeToo-máli

Japanska blaðakonan Shiori Ito með sigurspjaldið fyrir utan réttarsalinn í …
Japanska blaðakonan Shiori Ito með sigurspjaldið fyrir utan réttarsalinn í dag. AFP

Japönsku blaðakonunni Shiori Ito voru í dag dæmdar 3,3 milljónir jena, 3,7 milljónir króna, í miskabætur en hún sakaði fyrrverandi sjónvarpsfréttamann um að hafa nauðgað henni. Málið er eitt þekktasta #MeToo-málið sem komið hefur upp í Japan.

Málið, sem var einkamál, vakti mikla athygli í Japan og víðar en afar sjaldgæft er í Japan að þolendur nauðgana kæri til lögreglu. Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum er talið að aðeins 4% nauðgana komi á borð lögreglu. 

Ito er orðin að táknmynd #MeToo-hreyfingarinnar í Japan en þar hefur hreyfingin átt erfitt uppdráttar. Ito fór fram á 11 milljónir jena í miskabætur frá Noriyuki Yamaguchi, sem er fyrrverandi sjónvarpsfréttamaður og með náin tengsl við forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe. Hún segir að hann hafi nauðgað henni eftir að hafa boðið henni í mat þar sem ræða átti mögulegt starf fyrir hana í sjónvarpi árið 2015.

Yamaguchi neitaði sakargiftum og gerði gagnkröfu á hana um miskabætur upp á 130 milljónir jena.

„Við unnum. Gagnkröfunni var hafnað,“ sagði Ito fyrir utan dómshúsið og hélt á spjaldi þar sem á stóð sigur. 

Hún segist vonast til þess að málið verði til þess að nauðganir komist upp á yfirborðið bæði í réttarkerfinu sem og samfélaginu. Lögum var breytt í Japan árið 2017 og refsing við nauðgunum þyngd í 3-5 ár. Eins var skilgreiningin á kynferðisofbeldi víkkuð út og í fyrsta skipti gefinn möguleiki á að karlmenn geti þar verið þolendur.

mbl.is