Íranar undirbúa uppsögn kjarnorkusamkomulagsins

Frá undirritun samkomulagsins árið 2015.
Frá undirritun samkomulagsins árið 2015. Ljósmynd/Bandaríska utanríkisráðuneytið

Íranar munu í dag ljúka undirbúningi á fimmta skrefinu í þeirri áætlun að segja sig frá kjarnorkusamkomulaginu frá árinu 2015, sem Bandaríkin sögðu sig frá árið 2018. Þetta kom fram í máli Abbas Mousavi, talsmanns íranska utanríkisráðuneytisins, í dag.

„Ákvarðanir um fimmta skrefið hafa þegar verið teknar, en í ljósi aðstæðna verða einhverjar ákvarðanir teknar í dag,“ segir Mousavi. Tveir dagar eru frá því Bandaríkin drápu íranskan hershöfðingja, Qasem Soleimani í loftárás. „Í heimi stjórnmálanna hanga allir hlutir saman,“ sagði Mousavi.

Hann gaf þó engar nánari skýringar á því hvað fælist í fimmta skrefinu, né hvenær því yrði hrint í framkvæmd.

Kjarnorkusamkomulagið var undirritað árið 2015 milli Íran, annars vegar, og Bandaríkjanna, Frakklands, Þýskalands, Bretlands, Rússlands, Kína og Evrópusambandsins hins vegar. Sam­komu­lagið fól í sér að ír­önsk yf­ir­völd drógu veru­lega úr til­raun­um sín­um til framleiðslu kjarnavopna, en þess í stað afnámu hin ríkin ýmsar efnahagsþvinganir sem höfðu verið í gildi.

Samkomulagið hefur hangið á bláþræði frá því Bandaríkin sögðu sig frá því árið 2018, en leiðtogar annarra samningslanda hafa þó ítrekað hvatt stjórnvöld í Íran til að halda sig við það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert