Drengur lést er hann svaf úti í vagni

Kuldi í Rússlandi getur orðið mjög mikill. Daginn sem drengurinn …
Kuldi í Rússlandi getur orðið mjög mikill. Daginn sem drengurinn lést var sjö gráðu frost. AFP

Rannsókn er hafin í Rússlandi vegna barns sem var látið sofa úti í vagni og lést úr ofkælingu. Talið er að mögulega hafi saknæmt athæfi átt sér stað.

Barnið var sjö mánaða drengur og var sjö stiga frost þegar foreldrar hans komu honum fyrir úti á svölunum í vagni. Þar var drengurinn í fimm klukkustundir en atvikið átti sér stað í Khabarovsk-héraði. BBC greinir frá þessu.

Foreldrar hans segja að þau hafi sett hann út á svalir svo hann gæti fengið að sofa í fersku lofti. 

Fáfræði og vanræksla

Heilbrigðisyfirvöld á svæðinu hafa í kjölfar atviksins ráðlagt fólki að skilja ung börn ekki eftir eftirlitslaus. „Þú verður að vita öllum stundum hvar og með hverjum barnið þitt er. Ekki líta í burtu ef barn er í hættu. Á veturna getur barn sem er villt eða slasað mjög fljótt orðið fórnarlamb mikils kulda,“ segir í Instagram-færslu frá ráðuneytinu. 

Þar kom einnig fram að börn sem byggju í Khabarovsk yrðu í auknum mæli þolendur vegna fáfræði og vanrækslu foreldra sinna. 

Ástæða andlátsins er, eins og áður segir, ofkæling. Slíkt ástand kemur fram þegar kjarnhiti líkamans lækkar vegna kulda.

mbl.is