Boris vildi sem minnst segja um Harry og Meghan

Boris Johnson vildi sem minnst tjá sig um mál Harry …
Boris Johnson vildi sem minnst tjá sig um mál Harry og Meghan í þættinum BBC Breakfast í dag. Hér sjást þau öll saman, til sætis í Royal Albert Hall í nóvember. Á myndinni eru einnig Andrés prins og Carrie Symonds, sambýliskona forsætisráðherrans. AFP

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands segist algjörlega handviss um að breska konungsfjölskyldan muni leysa úr málum hertogahjónanna af Sussex, Harry og Meghan.

Í morgunþættinum BBC Breakfast í morgun sagði hann að það yrði jafnvel einfaldara fyrir konungsfjölskylduna, ef hann sjálfur og aðrir pólitíkusar, myndu sleppa því að gerast álitsgjafar um málið.

Johnson tjáði sig þannig lítið um málið er hann var inntur eftir skoðun sinni á því, sagði einungis að „allir hefðu skoðanir“ á stöðunni sem er uppi, hans skoðun væri sú að konungsfjölskyldan myndi leysa málið og að það væri ekki til bóta að hafa stjórnmálamenn gjammandi um málefni konungsfjölskyldunnar í fjölmiðlum.

Sem kunnugt er ætla þau Harry og Meghan að breyta hlutverki sínu innan konungsfjölskyldunnar, hætta að sinna konunglegum skyldustörfum og dvelja bæði í Kanada og á Bretlandi á „umbreytingatímabili“ sem hefur hlotið blessun Elísabetar Englandsdrottningar, sem þó sagðist frekar hafa kosið að hafa hjónin áfram við konungleg skyldustörf.

Hertoginn og hertogaynjan af Sussex hafa komið því á framfæri að þau stefni að því að verða fjárhagslega sjálfstæð í sínu nýja lífi og ekki á framfæri bresks almennings.

Það mun þó ekki gerast einn, tveir og þrír. Justin Trudeau, forsætisráðhera Kanada, sagði i dag að það þyrfti að eiga sér stað umræða um það hvernig öryggisgæsla hjónanna á kanadískri grundu yrði fjármögnuð.

Frétt BBC um málið

mbl.is