Hansen fær heimsókn

Fjotolf Hansen, betur þekktur sem Anders Behring Breivik, skæðasti fjöldamorðingi …
Fjotolf Hansen, betur þekktur sem Anders Behring Breivik, skæðasti fjöldamorðingi í sögu Noregs á friðartímum, fékk heimsókn frá samfanga í Skien-fangelsinu í desember, þá fyrstu síðan móðir hans heimsótti hann árið 2013. AFP

Skömmu fyrir jól gerðist það í Skien-fangelsinu í Telemark, suðvestur af Ósló, að fanginn Fjotolf Hansen fékk heimsókn í klefa sinn. Líklega þætti þetta hálfþunnt fréttaefni fylgdi það ekki sögunni að Hansen þessi hét í þjóðskrá Anders Behring Breivik þar til hann breytti um nafn árið 2017 og situr inni fyrir skæðasta fjöldamorð á friðartímum í Noregi 22. júlí 2011.

Að frátöldum heimsóknum séra Tormod Klovning, lögmannsins Øystein Storrvik og fagfólks á ýmsum sviðum er þetta fyrsta heimsóknin sem þjóðernisöfgamaðurinn alræmdi fær síðan móðir hans heimsótti hann síðast, árið 2013.

Gesturinn er samfangi Hansens í Skien-fangelsinu og talsmenn þess þegja þunnu hljóði um hver kveikjan var að þessu skyndilega samneyti en Hansen hefur, fyrir utan heimsókn móðurinnar og nú samfangans, auk réttarhalda vegna meints mannréttindabrots árið 2015, setið í algjörri einangrun síðan 24. ágúst 2012, þegar hann var dæmdur til að sæta 21 árs varðveisludómi (n. forvaring), réttarúrræði sem getur falið það í sér að hann sitji bak við lás og slá til dauðadags.

Erfitt að finna fanga?

„Það er staðreynd að hann hefur nú í fyrsta sinn fengið heimsókn og haft félagsskap af samfanga,“ segir Storrvik lögmaður í samtali við norska dagblaðið VG. „Breivik lýsti þessu atviki sjálfur sem jákvæðri upplifun,“ segir hann enn fremur og kýs greinilega að nota það nafn sem fjöldamorðinginn var skírður.

Storrvik segir heimsóknina hafa tekist vel og þeir [Storrvik og Breivik] vænti þess að slíkar heimsóknir verði hluti af afplánun hans um ókomna tíð.

Blaðamaður VG spyr Storrvik hvort það hafi verið erfiðleikum bundið að finna fanga sem yfir höfuð kærði sig um að heimsækja Hansen. „Ég kom ekkert að því ferli, fangelsið verður að svara því,“ segir lögmaðurinn að bragði.

Stefnan sem fór í vaskinn

Árið 2015 tók Breivik að þykja dauf vistin í einangrun sinni og brá þá á það ráð að stefna norska ríkinu með tilheyrandi atgangi og fjölmiðlaveislu fyrir brot gegn mannréttindum hans. Héraðsdómur Óslóar snerist á sveif með stefnanda að hluta en Lögmannsréttur Borgarþings var ekki á þeim buxunum og sýknaði ríkið með öllu af áburði stefnanda. Hæstiréttur synjaði um áfrýjun frá lögmannsréttinum og síðasta hálmstráið, Mannréttindadómstóll Evrópu, vísaði málinu frá.

Lögmannsrétturinn opnaði þó þá glufu sem nú hefur verið smogið um og sagði í dómi sínum að þess yrði vænst að samneyti með öðrum föngum yrði reynt „áður en langt um líður“ (n. i løpet av relativt kort tid).

Storrvik lögmaður segir heimsóknina í desember skref í rétta átt, rúmlega sjö ára einangrun hafi að hans mati verið farin að nálgast það stig að vera ekki réttlætanleg lagalega.

„Óháð því hvað einhver hefur gert af sér verður hann með tímanum að fá að hitta aðrar manneskjur,“ segir Storrvik við VG í dag.

VG

VGII (nafnabreytingin)

NRK (samfangar þola ekki Breivik (2016))

Dagsavisen (Breivik tapar mannréttindamálinu (2017))

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert