Ósátt við aðskilnað frá dóttur

Schwesta Ewa hóf afplánun á sunnudag.
Schwesta Ewa hóf afplánun á sunnudag. Skjáskot af Facebook-síðu Schwesta Ewa

Þýska tónlistarkonan Schwesta Ewa hóf afplánun á sunnudag á tveggja og hálfs árs fangelsisdómi sem hún hlaut árið 2017 fyrir líkamsárás og skattsvik. Hún er ósátt við að fá ekki að hafa eins árs gamla dóttur sína með í fangelsið.

Þrátt fyrir að dómurinn yfir henni hafi fallið árið 2017 var það ekki fyrr en nýverið sem áfrýjunardómstóll staðfesti dóminn. Ewa fæddi dóttur sína, Aaliyah, í janúar í fyrra og óskaði eftir því að fá að afplána í kvennafangelsi þar sem mæður fá að vera í nánum tengslum við ung börn sín. Hún fékk synjun við beiðninni og tjáir sig um málið á samfélagsmiðlum. 

Ewa, sem er 35 ára gömul, mun fá að hitta Aaliyah í nokkur skipti og undir miklu eftirliti. Því verður Aaliyah í umsjón ættingja á heimili þeirra mæðgna í Düsseldorf.

Á Instagram fyrr í mánuðinum lýsir Ewa erfiðum undirbúningi fyrir afplánunina. „Á kvöldin ligg ég ein grátandi í rúminu. Barnið mitt verður tekið frá mér á mikilvægasta tímabili í lífi þess,“ skrifar hún meðal annars. 

Ewa segir að frá því hún eignaðist Aaliyah hafi hún unnið með velferðarsviði og fengið jákvæða umsögn frá þeim varðandi hegðun. Þrátt fyrir það var henni synjað um að afplána í Fröndenberg-fangelsinu vegna fyrri ofbeldissögu. Í fangelsinu er opin deild þar sem mæður fá íbúð sem þær geta deilt með börnum sínum. Þess í stað afplánar hún í Willich 2 fangelsinu í Düsseldorf.

Schwesta Ewa er af pólskum uppruna og heitir réttu nafni Ewa Malanda. Hún var dæmd til fangelsisvistar fyrir líkamsárásir gegn konum sem sökuðu hana um að hafa þvingað þær í vændi. Alls voru ákæruliðirnir 35 talsins. Við réttarhöldin játuðu konurnar að Ewa hafi ekki komið að því að þær færu í vændi þannig að hún var sýknuð af þeim lið ákærunnar. Ewa segist sjálf hafa starfað við vændi áður en hún fór í tónlist. Hún var einnig dæmd fyrir að hafa skotið 60 þúsund evrum, sem svarar til 8,3 milljóna króna, undan skatti, segir í frétt BBC.

Faðir Ewu var handtekinn og fangelsaður fyrir morð þegar móðir hennar gekk með Ewu. Fyrstu þrjú ár ævinnar var Ewa í felum með móður sinni þar sem óttast var að fjölskylda fórnarlambs föður hennar myndi hefna fyrir drápið. Þær fóru til Þýskalands og fengu heimild til að búa þar. Móðir hennar var síðan handtekin fyrir þjófnað og heimildin dregin til baka. Ewa ólst því upp á heimili fyrir flóttafólk og síðan í kvennaathvarfi.

Fyrir tvítugt var hún farin að starfa við vændi og ánetjaðist sterkum fíkniefnum. Þegar hún var handtekin í nóvember 2016 rak hún bar í Frankfurt en grunur lék á að þar væri rekin vændisstarfsemi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert