23 þúsund sóttu um starf á eyðieyju

Húsakostur á eyjunni.
Húsakostur á eyjunni. Ljósmynd/Vefur Great Blasket

Auglýsing um tvö sumarstörf á Great Blasket-eyju hefur vakið mikla athygli og bárust 23 þúsund umsóknir. Parið sem setti inn auglýsingu á samfélagsmiðlum nýverið á ekki orð yfir áhuganum og viðbrögðunum. 

Alice Hayes og Billy O'Connor búa á Dingle-skaganum, reka kaffihús og gistingu á Co Kerry og óskuðu eftir því að ráða tvær manneskjur til þess að reka kaffihúsið og kofana þrjá frá apríl fram í október. Þeir sem verða ráðnir til starfans munu dvelja á eyjunni á ráðningartímanum en ekki er búið á eyjunni. 

Ljósmynd/Vefur Great Blasket

Í samtali við írska útvarpið segja þau að viðbrögðin hafi komið þeim í opna skjöldu. „Við höfðum áhyggjur af því að enginn myndi sækja um. Margir sýndu áhuga í síðustu viku en undanfarna daga hefur þetta verið sturlað.“

Meðal annars hafa umsóknir komið frá Íran, Argentínu, Finnlandi og Mexíkó. Hayes segir að pósturinn þeirra hafi hrunið og símar þeirra pípi látlaust.

O’Connor segir að margir umsækjenda tali um að það sé ósnortin náttúra eyjarinnar sem heilli þá. „Ég geri ráð fyrir að fólk vilji aftengjast streitunni í daglegu lífi og fara úr hringiðunni. Það er allt mjög einfalt þarna. Það er ekkert rafmagn og eldað á gaseldavél. Lýsingin er kertaljós og hitað upp með olíu,“ segir hann og bætir við að ekki sé í boði að fara í heita sturtu. 

Ljósmynd/Vefur Great Blasket

Þau segja að umsóknirnar séu af ýmsum toga, meðal annars frá pari sem er um áttrætt. Þau hafa þegar svarað rúmlega eitt þúsund umsóknum en segja ekki mögulegt að þau nái að svara öllum. 

Hér er hægt að skoða myndir og lesa sér til um svæðið

 

mbl.is

Bloggað um fréttina