Þróa bóluefni á methraða

Vísindamenn vinna nú dag og nótt við að þróa bóluefni …
Vísindamenn vinna nú dag og nótt við að þróa bóluefni gegn kórónaveirunni. AFP

Ný banvæn veira. Þúsundir hafa smitast. Engin lækning er til. Engin bólusetning.

Við höfum verið á þessum stað ansi oft. Bara á síðustu fimm árum höfum við staðið frammi fyrir ebólaveirufaraldri, zika-veirufaraldri, annarri kórónaveiru sem kallaðist Mers og nú kórónaveiru sem gengur undir nafninu 2019-nCoV hjá vísindamönnum. Í almennu tali tölum við þó einfaldlega kórónaveiru eða Wuhan-veiru, eftir þeirri borg í Kína sem veiran á upptök sín í.

Nú þegar hafa yfir 170 látist úr þeim veirufaraldri sem við stöndum frammi fyrir núna og yfir 7.000 hafa smitast.

Yfirleitt tekur mörg ár að þróa bóluefni gegn nýjum veirum, en nú tókst vísindamönnum að hefja mikilvægar rannsóknir á veirunni aðeins nokkrum klukkutímum eftir að þeir komust að því af hvaða stofni hún væri. Kínverskir vísindamenn sendu frá sér upplýsingar um DNA-röð veirunnar mjög fljótt en þær upplýsingar eru mikilvægar til að finna út hvaðan veiran kemur, hvernig hún stökkbreytist þegar faraldurinn þróast og hvernig má vernda fólk gegn henni. BBC greinir frá.

Með því að nýta alla þá tækni sem til er og með nægu fjármagni frá ríkisstjórnum víða um heim hafa vísindamenn getað unnið linnulaust að því að þróa bóluefni gegn hinni nýju kórónaveiru.

Tók þrjá tíma að hanna bóluefni

Á rannsóknarastofunni Inovio í San Diego í Bandaríkjunum notast vísindamenn við nýja genatækni til að þróa hugsanlegt bóluefni sem gengur undir nafninu INO-4800 á tilraunastigi. Til stendur að það verði prófað á mönnum í vor eða snemma í sumar.

Kate Broderick, aðstoðaryfirmaður rannsókna og þróunar hjá Inovio, segir í samtali við BBC að um leið og vísindamenn í Kína hafi afhent þeim DNA röð veirunnar hafi verið hægt að keyra þær upplýsingar í gegnum tölvu á rannsóknarstofunni og með ákveðinni tækni, hægt að hanna bóluefni á innan við þremur klukkutímum.

„Við notum DNA-röð veirunnar til að herja á ákveðna hluta hennar sem við teljum að mannslíkaminn sýni hvað sterkust viðbrögð við. Þá notum við frumur úr sjúklingi til að útbúa bóluefni með því að styrkja ónæmiskerfið gegn veirunni.“

Hún segir að ef fyrstu tilraunir með bóluefnið í mönnum skili góðum árangri, verði farið í frekari tilraunir í lok þessa árs í Kína þar sem veiran á upptök sín.

Það er þó ómögulegt að segja til um hvort þessi faraldur verði liðinn undir lok á þeim tíma, en ef þessi tímalína sem Inovio hefur sett upp gengur eftir verður um að ræða bóluefni sem verður þróað og prófað hraðar en nokkurn tíma áður hefur verið gert í veirufaraldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert