„Án ykkar værum við ekki hér“

Á salerni á fjórðu hæð verslunarmiðstöðvarinnar Terminal 21 faldi hópur fólks sig klukkustundum saman fyrir fjöldamorðingja sem gekk berserksgang í miðstöðinni. Meðal annars fjölskylda sem þakkar starfsmanni sem fylgdist með ferðum morðingjans í gegnum öryggismyndavélar. Talið er að með þessum upplýsingum, sem dreift var í gegnum skilaboðasmáforrit til fólks sem var í felum í byggingunni, hafi tekist að bjarga lífi allt að 30.

Klukkutímum saman vafraði byssumaðurinn, hermaður sem hafði lent í harðvítugum deilum vegna fasteignaviðskipta, um verslunarmiðstöðina og lét reiði sína bitna á þeim sem hann rakst á. Áður hafði hann drepið fólk í herstöðinni og á leiðinni í verslunarmiðstöðina. Alls urðu fórnarlömbin 30 talsins en tugir til viðbótar eru særðir, sumir alvarlega. 

Fólk faldi sig víðsvegar, meðal annars í búningsklefum. Þar á meðal er Aldrin Baliquing, sem segist hafa verið skelfingu lostinn enda verslunin sem hann var inni í skammt frá þeim stað þar sem byssumaðurinn hélt fólki í gíslingu.

„Allt gerðist svo hratt,“ sagði Lapasrada Khumpeepong, 13 ára, við fréttamann AFP við minningarathöfnina sem haldin var í dag. Hún og móðir hennar læstu sig inni á salerni á fyrstu hæð verslunarmiðstöðvarinnar. Þar voru þær í fimm klukkustundir eftir að hafa flúið undan skothríðinni. „Takk öll sem fórnuðuð lífi ykkar fyrir okkur hin,“ sagði hún við minningarathöfnina. „Án ykkar værum við ekki hér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert