Hvaða viðurnefni fær Buttigieg?

Pete Buttigieg hefur komið ýmsum á óvart í kosningabaráttunni.
Pete Buttigieg hefur komið ýmsum á óvart í kosningabaráttunni. AFP

Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, leiðist ekkert að hnýta viðurnefni við pólitíska andstæðinga sína. En enn sem komið er hefur hann ekki náð flugi þegar kemur að nafnbót fyrir demókratann Pete Buttigieg.

Aðrir vongóðir frambjóðendur í forvali Demókrataflokksins hafa fengið viðurnefni. Má þar nefna „Crazy Bernie“ Sanders, „Sleepy Joe“ Biden, „Mini-Mike“ Bloomberg og „Pocahontas“ Elizabeth Warren.

Buttigieg, sem er 38 ára samkynhneigður fyrrverandi hermaður, hefur ýmum á óvart sloppið við eineltið af hálfu Trump. 

„Bootedgeedge (Buttigieg) gengur vel í kvöld. Lætur Crazy Bernie vinna fyrir peningnum. Mjög áhugavert!“ tísti Trump eftir að úrslitin voru ljós í New Hampshire á þriðjudag en þar hafnaði Buttigieg í öðru sæti á eftir Sanders.

Fréttamenn AFP-fréttastofunnar velta fyrir sér hvort Trump sjái ekki möguleikann í „Mayor Pete“ eða er hann bara að velta fyrir sér möguleikunum? spyrja blaðamenn AFP sig í frétt. 

Julian Zelizer, prófessor í stjórnmálasögu við Princeton-háskóla, efast ekki um að Buttigieg verði fljótlega skotmark Trump. „Í hvert skipti sem Trump sér ógn ræðst hann til atlögu,“ segir Zelizer og á ekki von á öðru en kröftugri sendingu frá forsetanum.

Samkvæmt AFP gæti viðurnefnið tengst því hversu erfitt er að bera Buttigieg fram. En það er alls ekki víst þar sem Buttigieg hefur nafnið í flimtingum og býðst til þess að aðstoða kjósendur við að bera það fram. Eða skortur á reynslu? En Buttigieg blæs á það og segir að hermennska í Afganistan skili meiri reynslu en margt annað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert