Spurn eftir vændi hefur gufað upp

AFP

Starfsfólk í frönskum kynlífsiðnaði berst í bökkum á tímum kórónuveirunnar þar sem heilsa þess er í húfi og spurn eftir þjónustu þess hefur gufað upp frá því veiran hóf að herja á landið. Þessi hópur á sér ekkert öryggisnet þegar tekjurnar hverfa.

Mörg þeirra hafa því neyðst til þess að færa starfsemi sína út á göturnar á sama tíma og útgöngubann gildir fyrir utan ferðir til og frá verslunum eftir helstu nauðsynjum.

„Ég á ekki annarra kosta völ þar sem ég vinn á götunni og ég fer heim til fólks,“ segir Pamela sem er 46 ára gömul vændiskona í borginni Toulouse en hún lagði niður störf daginn sem útgöngubanninu var komið á. Hún segir eftirspurnina enn vera til staðar en hún hafi ákveðið að hunsa beiðnir. „Að greiða 135 evrur í sekt fyrir viðskipti upp á 50 evrur, nei.“ 

AFP

Hún segir að ef útgöngubannið varir í langan tíma verði sparnaður hennar uppurinn. „Þá verð ég að taka áhættuna. Ef ég myndi sinna tveimur viðskiptavinum á viku þá myndi það nægja fyrir mat.“

Ástandið er hrikalegt segir samhæfingarstjóri hjá Læknum án landamæra (MSF), Sarah-Marie Maffesoli. Hún segir að viðskiptavinir starfsfólks í kynlífsiðnaðinum séu engir og hún veltir fyrir sér hversu lengi það getur þraukað án tekna. „Að vera heilbrigður án þess að fá að borða eða geta gefið börnum sínum að borða er flókið,“ segir hún. 

Vændi er ekki ólöglegt í Frakklandi en frá árinu 2016 hafa vændiskaup verið bönnuð í landinu er saknæmið var fært á viðskiptavininn. Sekt liggur við kaupum á vændi. 

Þrátt fyrir að franska ríkið hafi heitið öllum þeim sem eru sjálfstætt starfandi í landinu 1.500 evrum í bætur vegna minni eftirspurnar vegna kórónuveirunnar falla vændiskonur ekki í þann hóp. Til að bregðast við þessu hafa verið settir á laggirnar ýmsir hópar á netinu þar sem safnað er fé fyrir þennan hóp. 

Margar hjálparstofnanir eru hættar að veita stuðning og má búast við því að margir starfsmenn kynlífsiðnaðarins verði heimilislausir þar sem þeir geta ekki lengur greitt húsaleigu. Eins hafa hótel lokað sem þýðir að þeir starfa á götunni. 

Flóttafólk sem starfar sem vændi er sá hópur sem er í viðkvæmastri stöðu, sérstaklega þeir sem eru ekki með dvalarleyfi og tala ekki frönsku. 

June Charlot, sem starfar fyrir samtökin Griselidis sem dreifa fjárhagsaðstoð til þeirra sem þurfa á aðstoð að halda óttast mjög um þennan hóp og segir að stór hluti hans virðist hafa horfið af yfirborði jarðar. 

„Viðskiptavinir mínir eru flestir efnaðir. Þeir vita um áhættuna og eru hættir að sækjast eftir þjónustu minni,“ segir Charlie, sem er 28 ára Parísarbúi og starfar við fylgdarþjónustu. Hún segir að yfirleitt séu tekjur hennar um 2 þúsund evrur á mánuði án þess að hún þurfi að leggja mikið á sig. „Ég á einhvern sparnað en hann endist ekki í meira en mánuð,“ segir hún. 

Foreldrar Charlie vita ekki af starfa hennar og hún þorir ekki að flytja starfsemi sína á netið þar sem hún óttast fjárkúganir og hefndarklám ef myndskeiðunum með henni verði rænt líkt og algengt er að sé gert meðal hakkara. „Allir geta tekið skjáskot og dreift,“ segir hún. 

AFP
mbl.is