Á spítala með segla í nefinu

Sársaukinn var slíkur að Reardon gafst loks upp og gerði …
Sársaukinn var slíkur að Reardon gafst loks upp og gerði sér ferð á hverfissjúkrahúsið. AFP

Ástralskur stjarneðlisfræðingur sem hugðist nota snilligáfu sína til þess að forða fólki frá því að smitast af kórónuveirunni þurfti nýverið að leita á sjúkrahús vegna segla sem festust í nefi hans.

Greint er frá málinu á vef BBC, en þar segir að dr. Daniel Reardon hafi verið að hanna hálsmen sem átti að bregðast við því færi sá sem það hefði um hálsinn með hendur sínar í andlitið.

Græjan virkaði þó ekki sem skyldi og endaði tilraunastarfsemin með fyrrgreindum afleiðingum.

„Uppfinningin mín hafði einmitt öfug áhrif og suðaði stanslaust þar til hún komst í návígi við segul. Ég gafst tímabundið upp og ákvað að skemmta mér aðeins. Ég fór að setja segla í andlitið á mér, fyrst á eyrnasneplana og svo í nefið, eins og ég væri með seglaskart.“

Hann lenti svo í vandræðum þegar hann setti segla á miðsnesið, en segulkrafturinn var svo sterkur að hann náði þeim ekki aftur af.

Reardon dó þó ekki ráðalaus strax þrátt fyrir smá sársauka og hugðist ná seglunum úr nefinu á sér með öðrum seglum. Þeir enduðu hins vegar á að festast í nefi hans eins og hinir seglarnir. Stjarneðlisfræðingurinn gafst enn ekki upp og hóf að reyna að losa seglana með töng.

Sársaukinn var hins vegar slíkur að Reardon gafst loks upp og gerði sér ferð á hverfissjúkrahúsið, þar sem samstarfsfélagar maka hans gerðu góðlátlegt grín að honum.

Reardon hefur ákveðið að leggja uppfinningaskóna á hilluna í bili og leyfa öðrum færari að spreyta sig.

mbl.is