Svíakonungur ræður frá ferðalögum

Karl Gústaf Svíakonungur ávarpaði þjóð sína í dag.
Karl Gústaf Svíakonungur ávarpaði þjóð sína í dag. AFP

Það er ekki bara á Íslandi þar sem hvatt er til „innanhússferðalaga“ um páskana því Karl Gústaf Svíakonungur hvatti í dag samlanda sína til þess að sleppa ferðalögum til vina og ættingja um páskana.

Eins og áður hefur verið greint frá hafa Svíar gripið til nokkuð mildari aðgerða vegna kórónuveirunnar en mörg önnur Evrópuríki og hafa stjórnvöld verið gagnrýnd fyrir það. Bæði þarlendis og frá öðrum. Á einni viku hefur tala látinna í Svíþjóð vegna Covid-19 farið úr 110 í 401 og var tala smitaðra 6.830 í dag en 3.700 fyrir viku. Skal þó fram tekið að hin raunverulega tala smitaðra er að líkindum hærri, enda er sýnataka talsvert takmarkaðari en í mörgum öðrum löndum. 

Verða að búa sig undir að þurfa að vera heima

Í ávarpi til þjóðar sinnar í dag sagði Karl Gústaf, sem vegna aldurs hefur sjálfur lokað sig af frá samskiptum við aðra: „Um páskana er okkur tamt að ferðast og eyða jafnvel tíma með fjölskyldu og vinum. Margir fara til kirkju. En um þessa páska verður sumt af þessu ómögulegt að gera. Við verðum að sætta okkur við það. Við þurfum að endurskoða stöðuna og búa okkur undir að þurfa að vera heima.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert