Sluppu ómeiddir þegar brú hrundi

Aðeins tveir bílar voru á brúnni þegar hún hrundi.
Aðeins tveir bílar voru á brúnni þegar hún hrundi. AFP

Tveir ítalskir sendibílstjórar sluppu svo til ómeiddir þegar brú sem þeir keyrðu yfir hrundi. Um er að ræða brú yfir á í norðurhluta Ítalíu, en stjórnvöld hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að vanrækja vegainnviði, ekki síst eftir að 43 létust þegar brú hrundi í Genúa í ágúst 2018.

Slys þetta hefði getað farið mun verr, en venjulega er mjög mikil umferð um brúna. Það var lán í óláni að útgöngubann vegna kórónuveirufaraldursins er í gildi á Ítalíu og því eins og áður segir aðeins tveir bílar á brúnni er hún hrundi.

Samkvæmt frétt BBC af málinu fékk annar bílstjórinn á sig múrstykki við hrun brúarinnar og var hann fluttur með þyrlu á sjúkrahús. Þar voru áverkar hans hins vegar metnir minniháttar.

Hinn bílstjórinn komst af sjálfsdáðum úr bifreið sinni og slapp ómeiddur en er í talsverðu áfalli, að sögn yfirvalda á svæðinu. Slökkvilið vinnur nú að því að skoða ána, ef ske kynni að fleiri hefðu verið á brúnni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert