Kínverjar styrkja WHO um 4,3 milljarða

Kínverjar og Bandaríkin eru ekki á sama máli þegar það …
Kínverjar og Bandaríkin eru ekki á sama máli þegar það kemur að því hvernig WHO hafi staðið sig í baráttunni við veiruna alræmdu. AFP

Kínversk stjórnvöld hafa ákveðið að auka framlag sitt til handa Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) um 30 milljónir dala, sem jafngildir um 4,3 milljörðum kr. En tilgangurinn er að aðstoða stofnunina í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Nýverið greindu Bandaríkin frá því að þau hafi ákveðið að frysta fjárframlög sín til WHO. 

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins segir að þetta sé viðbót við þær 20 milljónir sem kínversk stjórnvöld hafi þegar lagt fram til handa WHO, en tilgangurinn er að styrkja stofnunina í baráttunni við veiruna og styrkja heilbrigðiskerfi þrórunarlanda. 

Talsmaðurinn sagði ennfremur, að fjárframlögin endurspegluðu þann stuðning og það traust sem ríkisstjórn Kína og landsmenn allir beri til WHO. 

Bandarísk stjórnvöld, sem hafa verið stærsti einstaki styrktaraðili WHO, sökuðu í síðustu viku stofnunina um að hafa staðið sig illa í baráttunni við núverandi neyðarstand. Trump Bandaríkjaforseti, sem greindi frá því að fjárframlögin yrðu fryst, sakaði WHO um að reyna breiða yfir alvarleika málsins þegar útbreiðslan hófst í Kína og áður en að veiran náði að dreifa sér um heimsbyggðina. 

Trump sagði að bandarískir skattgreiðendur sjái til þess að WHO fái á bilinu 400-500 milljónir dala á ári, á meðan framlög Kínverja séu í kringum 40 milljónir dala, eða minna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert