Bandaríkin „hafa ekki séð" Kim undanfarið

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Bandarískir embættismenn „hafa ekki séð“ Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu undanfarið og þeir fylgjast grannt með fregnum af heilsufari hans. Þetta sagði Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Hann lýsti einnig yfir áhyggjum af því að Norður-Kóra gæti farið illa út úr annað hvort kórónuveirunni eða hungursneyð, að sögn BBC

Kim, sem er 36 ára, birtist síðast opinberlega í ríkisfjölmiðli 12. apríl og fóru eftir það af stað vangaveltur um að hann væri alvarlega veikur. Ráðamenn í Suður-Kóreu báru þær sögusagnir til baka og sögðu þær rangar.

Einnig hafa verið vangaveltur uppi um að leiðtoginn sé staddur í borginni Wonsan í von um að smitast ekki af kórónuveirunni. Landamærum landsins var lokað seint í janúar vegna faraldursins.

Leiðtogi Norður-Kóreu 28. ágúst 2016 á May Day-leikvangnum í Pyongyang.
Leiðtogi Norður-Kóreu 28. ágúst 2016 á May Day-leikvangnum í Pyongyang. AFP

Þegar Pompeo var spurður í Fox News út í heilsufar Kim sagði hann: „Við höfum ekki séð hann. Við höfum engar upplýsingar í dag, við fylgjumst náið með gangi mála,“ sagði ráðherrann. „Það er raunveruleg hætta á því að það verði hungursneyð, matarskortur í Norður-Kóreu.“

Hann bætti við: „Við fylgjumst náið með þessu öllu vegna þess að þeir hafa alvöru áhrif á okkar áform, sem er að afkjarnorkuvæða Norður-Kóreu.“

Á tíunda áratugnum braust út mikil hungursneyð í landinu og talið er að hundruð þúsunda Norður-Kóreubúa hafi látist.

Kim Jong-un í mars í fyrra.
Kim Jong-un í mars í fyrra. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert