Hópsmit í vöruhúsi vefverslunar

AFP

Nýtt hópsmit í vöruhúsi í úthverfi Seúl hefur mikil áhrif á fjölda nýrra smita í Suður-Kóreu en í dag var tilkynnt um 40 ný kórónuveirusmit þar í landi. Hafa þau ekki verið svo mörg á einum degi í sjö vikur.

Alls hafa verið staðfest 11.265 kórónuveirusmit í Suður-Kóreu frá því faraldurinn braust þar út snemma á árinu. Áttunda apríl voru skráð 53 ný smit en síðan þá hafa þau verið afar fá. Í dag voru aftur á móti 36 ný smit á einum vinnustað, vöruhúsi vefverslunarinnar Coupang í Bucheon.

Að sögn aðstoðarheilbrigðisráðherra landsins, Kim Gang-lip, er talið að skýringin á svo mörgum smitum þar sé sú að sóttvarnareglum var ekki fylgt á vinnustaðnum. Ef þær eru ekki settar á vinnustöðum geti það haft skelfilegar afleiðingar í för með sér segir Kim. 

Yfirvöld segja að litlar líkur séu á að þeir sem eigi von á póstsendingu frá vöruhúsinu smitist einnig. 

Slakað hefur verið á fjarlægðarreglum í Suður-Kóreu og flest fyrirtæki komin í fullan rekstur að nýju. Söfn og kirkjur hafa verið opnuð en ákveðnar takmarkanir eru á íþróttaiðkunum. Það er að í körfubolta- og knattspyrnudeildum er leikið fyrir luktum dyrum. 

Skólar eru teknir til starfa að nýju en einhverjir menntaskólar urðu að senda nemendur heim í síðustu viku vegna nýrra smita í nágrenni skólanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert