Getur Kanye West orðið forseti?

Kanye West vill verða forseti Bandaríkjanna.
Kanye West vill verða forseti Bandaríkjanna. AFP

Fjöllistamaðurinn Kanye West lýsti því yfir á Twitter-síðu sinni í gær að hann hygðist bjóða sig fram til embættis forseta Bandaríkjanna. Af tístinu að dæma er ekki alveg ljóst í hvaða kosningum það verður, en myllumerkið #2020VISION gefur tilefni til þess að ætla að hann eigi við kosningarnar í haust.

Eins og Guardian bendir á er ekki vitað hvaða hæfa er í þessum yfirlýsingum en þó segir þar að í einhverjum ríkjum sé fresturinn ekki runninn út til þess að bæta við sjálfstæðum frambjóðendum á listana. 

Flestir draga áformin í efa og Guardian gengur svo langt að velta því upp hvort yfirlýsingar á borð við þessa eigi ekki betur við á 1. apríl en 4. júlí. Hvað sem því líði séu fjórir mánuðir til kosninga, sem eru 3. nóvember, og því enn svigrúm til að fara af stað.

Í janúar á síðasta ári boðaði West þessi sömu áform, þótti mörgum, þegar hann tísti einfaldlega 2024. Menn skildu það sem svo að þá hygðist hann bjóða fram. Þá var ekki langt liðið frá fundi hans við Donald Trump sitjandi forseta í Hvíta húsinu, sem vakti mikla fjölmiðlaathygli. West skreytti sig um hríð merkjum Trump með „Make-America-Great-Again“-derhúfunni en hefur dregið stuðning sinn við forsetann að einhverju leyti til baka.

Rappari og forseti hittast á skrifstofu forseta 11. október 2018.
Rappari og forseti hittast á skrifstofu forseta 11. október 2018. AFP

Hefur stuðning Musk

Það er ekki alls kostar óraunhæft að West gæti náð árangri í framboði núna í vetur. Það mun vera einhver hefð fyrir sjálfstæðum frambjóðendum utan þess tveggja turna tals sem bandarísk pólitík annars er á milli demókrata og repúblikana. Þannig fékk Ross Perot, sérlyndur milljarðamæringur eins og Guardian segir, 19% fylgi árið 1992. Hann var einn í framboði.

Einnig er ljóst að West hefði stuðning margra sem einn áhrifamesti listamaður síðari tíma í Bandaríkjunum. Þá á hann vini á réttum stöðum, eins og sést á jákvæðum viðbrögðum tæknifrumkvöðulsins og auðkýfingsins Elon Musk við hugmyndinni: „Ég styð þig alla leið,“ tístir hann.

Það er síðan í raun ekki flókið fyrir West að standa við stóru orðin, enda segir hann ekki berum orðum hvenær framboðið á að eiga sér stað. Ef það verður ekki í vetur getur hann ævinlega borið fyrir sig að hann hafi verið að tala um árið 2024. Miðað við þá vinnu og þá fjármuni sem hafa í gegnum tíðina farið í sigursæl forsetaframboð í Bandaríkjunum, er annars hæpið að ætla að West geti komið slíku til leiðar á næstu fjórum mánuðum.

Biden, Trump og West

Ef West færi fram þessar kosningar væri hann að ganga inn í eldfimt ástand. Joe Biden frambjóðandi demókrata hefur síðustu daga og vikur sótt verulega á í kosningabaráttunni og hefur í nýjum könnunum forskot á Trump um tæp níu prósentustig, ástand sem fáir sáu fyrir fyrir skemmstu.

Í grein Politico er þó bent á að annar eins og mun meiri munur hefur mælst frambjóðendum í hag í aðdraganda kosninga, en þó farið svo að andstæðingurinn sigri þegar til kastanna kemur. Biden megi því ekki missa móðinn vilji hann sigra Trump í nóvember, en forsetinn stendur þessa dagana í ströngu við að svara fyrir viðbrögð stjórnarinnar við kórónuveirufaraldrinum. Á sama tíma hefur Trump verið að benda á mikinn fjölda starfa sem hafa skapast í landinu í júnímánuði.

mbl.is