Fyrrverandi blaðamaður handtekinn fyrir landráð

AFP

Ráðgjafi forstöðumanns rússnesku geimvísindastofnunarinnar (Roscosmos), Ivan Safronov, sem er fyrrverandi blaðamaður, var handtekinn á þriðjudagsmorgun fyrir landráð. Að sögn rússnesku alríkislögreglunnar (FSB) er Safronov grunaður um njósnir fyrir óltilgreint ríki innan Atlandshafsbandalagsins. BBC greinir frá.

Safronov er talinn hafa safnað leynilegum hernaðarupplýsingum og deilt þeim með leyniþjónustu NATO-ríkisins. Hann á yfir höfði sér allt að tuttugu ára fangelsisdóm verði hann fundinn sekur.

Blaðakonan Taisiyja Bekbulatova, sem er ritstjóri fréttarímaritsins Holod Media, var einnig handtekin í tengslum við málið, en hún er talin vera vinkona Safronovs.

Ivan Safronov var handtekinn fyrir grun um njósnir fyrir ótilgreint …
Ivan Safronov var handtekinn fyrir grun um njósnir fyrir ótilgreint ríki í Atlandshafsbandalaginu. AFP

Tengdist ekki starfi hans

Ivan Safronov er fyrrum blaðamaður fyrir rússnesku dagblöðin Kommersant og Vedomosti, og fjallaði hann gjarnan um hernaðarmál í Rússlandi. Talsmaður Kremlinnar telur þó að handtakan sé ekki tengd blaðamennsku Safronovs á nokkurn hátt.

Hann var rekinn frá Kommersant í maí 2019 vegna fréttar um rússnesku þingkonuna Valentinu Matviyenko.

Sarfonov gekk til liðs við Roscosmos í maí, sem upplýsingaráðgjafi forstöðumanns stofnunarinnar. Í tilkynningu geimferðastofnunarinnar kemur fram að handtakan hafi heldur ekki tengst starfi Safronovs hjá Roscosmos.

Njósnamál afar ógagnsæ

Að sögn Söru Rainsford, fréttaritara BBC í Moskvu, eru njósnamál í Rússlandi afar ógagnsæ. Réttarhöldin fara iðulega fram á bak við luktar dyr, og lykilupplýsingum um málin er ekki deild með almenningi. Þó telur hún að mál Safranovs muni vekja athygli, þar sem margir blaðamenn þekki til hans og að ásakanirnar gegn honum eru sagðar „fáránlegar.“

Faðir Safronov var einnig blaðamaður hjá Kommersant, en hann lést árið 2007 eftir að hafa fallið út um glugga á heimili sínu. Hann var að rannsaka meinta vopnasölusamninga við Sýrland og Íran þegar hann lést.

Stuðningsmenn Safronovs komu saman fyrir utan höfuðstöðvar rússnesku alríkislögreglunnar.
Stuðningsmenn Safronovs komu saman fyrir utan höfuðstöðvar rússnesku alríkislögreglunnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert