Borgarstjóri Seúl fannst látinn

Park Won-Soon borgarstjóri fannst látinn í dag.
Park Won-Soon borgarstjóri fannst látinn í dag. AFP

Borgarstjóri Seúl, Park Won-soon, fannst látinn í fjallshlíð í norðurhluta suður-kóresku höfuðborgarinnar í kvöld. Hans hafði verið saknað síðan í morgun.

Dóttir Park gerði lögreglu viðvart vegna miða sem faðir hennar hafði skilið eftir áður en hann yfirgaf heimili sitt í morgun. Hann fannst látinn í fjallshlíð Bungak í norðurhluta borgarinnar, skammt frá staðnum þar sem merki frá farsíma hans hafði síðast verið greint.

Yfirvöld í Seúl hafa ekki greint frá andlátsorsökinni, en komið hefur í ljós að kvenkyns starfsmaður ráðhússins hafði lagt fram kvörtun á hendur Park vegna kynferðislegrar áreitni nokkrum klukkustundum áður en sást síðast á lífi. Ekki liggur fyrir hvort það tengist andlátinu.

Park mætti ekki í vinnuna í dag, fimmtudag, og aflýsti öllum fundum sem hann átti, meðal annars fundi með fulltrúa forseta Suður-Kóreu.

Frá leitaraðgerðum í Seúl í kvöld.
Frá leitaraðgerðum í Seúl í kvöld. AFP

Síðast sást til Park á öryggismyndavél í skóginum við Bungak-fjall rétt fyrir klukkan ellefu í morgun, en síðan hafa um 600 lögreglu- og slökkviliðsmenn leitað hans með aðstoð dróna og hunda.

Park var kjörinn borgarstjóri Seúl 2011 og hlaut síðast endurkjör í júní á síðasta ári. Hann er samflokksmaður Moon Jae-in forseta og hafði verið nefndur sem hugsanlegur forsetaframbjóðandi demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert