Sjálfboðaliði handtekinn vegna brunans í Nantes

Kirkjan varð fyrir miklum skemmdum í brunanum.
Kirkjan varð fyrir miklum skemmdum í brunanum. AFP

Sjálfboðaliði í dómkirkjunni í Nantes í Frakklandi hefur verið handtekinn í tengslum við eldsvoða sem gjöreyðilagði kirkjuna.

Le Monde hefur eftir saksóknara að hinn grunaði, flóttamaður frá Rúanda sem starfaði sem umsjónarmaður í kirkjunni, hafi viðurkennt að hafa kveikt eldinn.

Lögmaður mannsins segir í samtali við annan fjölmiðil að maðurinn stórsjái eftir gjörðum sínum. 

Meðal þess sem eyðilagðist í eldinum var orgel frá 17. öld og sögulegir myndskreyttir gluggar kirkjunnar.

Sjálfboðaliðinn, sem er 39 ára en hefur ekki verið nefndur á nafn, var handtekinn skömmu eftir brunann 18. júlí síðastliðinn, en honum var svo sleppt úr haldi. Hann var síðan fenginn aftur til skýrslutöku í gær og hnepptur í gæsluvarðhald í kjölfarið. 

Frétt BBC

mbl.is