Enn gripið inn í vegna staðhæfinga Trumps

Trump á ekki sjö dagana sæla á samfélagsmiðlum þessa dagana.
Trump á ekki sjö dagana sæla á samfélagsmiðlum þessa dagana. AFP

Samfélagsmiðlarnir Facebook og Twitter hafa báðir gripið inn í færslur Donalds Trump Bandaríkjaforseta og kosningaherferðar hans, þar sem fullyrt er að börn séu „nánast ónæm“ fyrir kórónuveirunni.

Um er að ræða færslu þar sem myndskeiði af viðtali við Trump á fréttastöðinni Fox News er deilt og hann lætur þessi orð falla.

Facebook eyddi færslunni og sagði hana innihalda skaðlegar misvísandi upplýsingar um kórónuveirufaraldurinn og Twitter frysti aðgang kosningaherferðar Trump þar til færslunni yrði eytt.

Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum taka skýrt fram að börn séu ekki ónæm fyrir veirunni.

mbl.is