Danir hætta við tilslakanir

Mette Frederiksen segir Dani hafa slakað of mikið á í …
Mette Frederiksen segir Dani hafa slakað of mikið á í persónulegum smitvörnum. AFP

Þar sem tala smitaðra hækkar sífellt í Danmörku og margir eru hættir að fylgja leiðbeiningum til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar hafa stjórnvöld í Danmörku tekið ákvörðun um að hætta við boðaðar tilslakanir á takmörkunum vegna faraldursins þar í landi. Þetta segir Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur, í samtali við danska fjölmiðilinn Avisen

„Við erum farin að slaka á. Fólk sprittar sig minna og fjarlægðin á milli okkar er orðin styttri. Þá erum við farin að fjölga þeim sem við eigum samskipti við. Nú erum við stödd á þeim stað sem við getum tekið ákvörðun um það hvers konar haust við förum inn í,“ segir Mette. 

Í fjórða áfanga tilslakana, sem átti að hefjast í þessum mánuði, hefði næturlífið mátt vakna aftur úr dvala. Nú er ekki útlit fyrir annað en að næturlíf Danmerkur fái að sofa áfram værum blundi. 

Skólar fá líklega að opna

Í þessum fjórða áfanga átti einnig að opna menntastofnanir sem höfðu verið lokaðar. Sömuleiðis átti að hækka fjölda þeirra sem mega koma saman. 

Frederiksen segir nú að næturlífið muni ekki opna aftur á næstunni. Hún telur að það sé einfaldlega of hættulegt við núverandi aðstæður. Þá segir forsætisráðherrann enn fremur að samkomutakmörkum verði ekki breytt en eins og stendur mega 100 manns koma saman. Fyrirhugað var að 200 mættu koma saman í fjórða áfanga tilslakana en Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra Danmerkur, aflýsti þeirri áætlun á fimmtudag. 

Frederiksen telur þó að mögulegt verði að ljúka næsta áfanga opnunar menntastofnana.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við blaðamenn í gær að Danir stæðu betur en Íslendingar hvað varðar nýgengi smita. 

mbl.is