„Allir eru orðlausir“

Um 1,8 milljónir hektara lands hafa brunnið í gróðureldunum miklu sem hafa logað á vesturströnd Bandaríkjanna. Svæðið er aðeins stærra en Connecticut-ríki. Vísindamaðurinn Daniel Swain, sem sérhæfir í sig í loftslagsbreytingum, segir í samtali við The New York Times, að það sé alveg skelfilegt að sjá svona marga elda brenna á sama tíma og valda svona mikilli eyðileggingu. 

Ríflega 100 gróðureldar skilja nú eftir sig sviðna jörð í 12 ríkjum í vesturhluta Bandaríkjanna. 

„Ég hef líklega rætt við á þriðja tug sérfræðinga í bruna- og loftlagsmálum undanfarna tvo sólarhringa og allir eru eiginlega orðlausir. Það man enginn eftir einhverju af þessu umfangi og stærðargráðu.“

Almannavarnir í Oregon hafa staðfest að um 10% íbúa ríkisins hafi neyðst til að flýja eldana, en íbúafjöldinn þar er alls um 4,2 milljónir.

Kate Brown, ríkisstjóri Oregon, segir á vef BBC að yfirvöld hafi aldrei staðið frammi fyrir svo mörgum eldum sem loga á sama tíma í ríkinu. Hún segir að þetta sé dæmi um þær breytingar sem menn standi nú frammi fyrir og þetta sé ekki eitthvað sem muni aðeins gerast í eitt skipti. Íbúar séu að finna fyrir áhrifum af völdum loftslagsbreytinga og það gerist hratt. 

mbl.is