Bandarískir þingmenn byrsta sig við Boris vegna Brexit

Dominic Raab, utanríkisráðherra Breta, mun þurfa að beita öllum sínum …
Dominic Raab, utanríkisráðherra Breta, mun þurfa að beita öllum sínum persónutöfrum til þess að blíðka bandaríska þingmenn. AFP

Dominic Raab, utanríkisráðherra Breta, á erfitt verkefni fyrir höndum í heimsókn sinni til Bandaríkjanna í dag. Hann mun freista þess að sefa áhyggjur stjórnmálamanna vestra af því að fyrirætlanir Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, um að falla frá sumum ákvæðum útgöngusamnings Breta við Evrópusambandið (ESB) stefni friðarferlinu í hættu.

Það verkefni Raab varð ekki auðveldara viðfangs eftir að bréf fjögurra bandarískra fulltrúadeildarþingmanna til breska forsætisráðherrans var birt í gærkvöld. Þar sagði m.a. að margir Bandaríkjamenn og fjölmargir þingmenn vestra litu svo á að hugsanlegur fríverslunarsamningur Bandaríkjanna og Bretlands væri tengdur sáttmálanum um friðarferli á Írlandi, sem jafnan er kenndur við föstudaginn langa. Væri honum stefnt í voða gæti ekkert orðið úr fríverslunarsamningi milli landanna. Meðal bréfritara er Eliot L. Engel, formaður utanríkismálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, tveir aðrir demókratar og einn repúblikani.

Léttir Boris ekki róðurinn

Ósennilegt er að bréf bandarísku þingmannanna leiði til stefnubreytingar í Lundúnum, en það léttir Boris ekki róðurinn. Hann vill mikið til vinna að ná fríverslunarsamningi við Bandaríkin eftir úrgönguna úr ESB og Donald Trump Bandaríkjaforseti og repúblikanar í þinginu hafa almennt tekið undir það. Hins vegar er alls óvíst að hann verði í Hvíta húsinu þegar þar að kemur, en þar fyrir utan þarf að bera slíka samninga undir þingið, þar sem Demókrataflokkurinn er með meirihluta.

Raab mun hitta hinn bandaríska kollega sinn, Mike Pompeo, en einnig Nacy Pelosi, forseta fulltrúadeildarinnar, þar sem demókratar hafa meirihluta. Hún sagði í liðinni viku að ekki yrði úr fríverslunarsamningi landanna ef grafið yrði undan friðarferlinu á nokkurn hátt.

Frumvarp ríkisstjórn Íhaldsflokksins um breytta tilhögun við úrgöngu Breta úr ESB var afgreitt úr neðri málstofu breska þingsins í gær, en það brýtur í bága við samkomulag Breta við ESB, sem náðist um úrgönguna í fyrra. Boris Johnson segir sér nauðugan einn kost, þar sem samningamenn ESB hafi dregið á eftir sér lappirnar í samningaviðræðum um eftirmálin, sér í lagi um viðskiptasamning Bretlands og ESB eftir úrgönguna. Fulltrúar sambandsins hafi því ekki lagt sig fram í góðri trú, líkt og áskilið hafi verið. ESB geti ekki haft sína hentisemi um sumt í samkomulaginu en krafist skilyrðislausra efnda á öðru, Bretar þurfi að verja hagsmuni sína. Um þetta var harkalega deilt í breska þinginu og ekki allir þingmenn Íhaldsmanna sammála leiðtoga sínum.

Þvergirðingsháttur ESB sem stefni friðarferlinu í voða

Ráðherrar játuðu að frumvarpið gengi gegn samningnum við ESB og væri að því leyti ekki í samræmi við alþjóðalög og venjur, en ítrekuðu að það breytti engu um friðarferlið og fæli ekki í sér neinar aðgerðir, heldur aðeins varúðarráðstafanir ef Bretar fara úr ESB án viðskiptasamninga.

Dominic Raab utanríkisráðherra segir raunar að þessu sé öfugt farið, það sé þvergirðingsháttur ESB sem stefni friðarferlinu í voða. Án viðskiptasamnings við ESB muni sambandið reisa hindranir á landamærum hins breska Norður-Írlands og írska lýðveldisins, sem gangi í berhögg við anda og bókstaf friðarferlisins. Ljóst er að mjög mun reyna á sannfæringarkraft hans í viðræðum við bandaríska stjórnmálamenn, en varla er tilviljun að margir þeirra sem látið hafa sig málið mestu varða vestanhafs eru af írskum ættum og rennur blóðið til skyldunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert