Biður Navalní afsökunar á taugaeitrinu

Alexei Navalní, helsti stjórnarandstæðingur Rússlands, dvelur nú á sjúkrahúsi í …
Alexei Navalní, helsti stjórnarandstæðingur Rússlands, dvelur nú á sjúkrahúsi í Berlín. AFP

Rússneski efnafræðingurinn Vil Mirzajanov hefur beðið Alexei Navalní, helsta stjórnarandstæðing Rússlands, afsökunar á þátttöku sinni í þróun taugaeitursins novichok. Eitrað var fyrir Navalní með novichok í síðasta mánuði og glímir hann enn við afleiðingar eitrunarinnar á sjúkrahúsi í Berlín.

Mirzajanov var meðal þeirra sem tóku þátt í leynilegu sovésku verkefni um hönnun efnavopnsins á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Í viðtali við rússnesku sjónvarpsstöðina TV Rain í dag sagðist Mirzajanov vilja biðjast afsökunar í ljósi „óumdeilanlegra sönnunargagna“ sem sýndu að eitrað hefði verið fyrir Navalní með þessari tegund eiturs.

Áður hafði annar vísindamaður, sem einnig vann að þróun eitursins, þvertekið fyrir að Navalní gæti hafa orðið fyrir novichok-eitrun.

Gæti tekið ár að jafna sig

Mrizajanov spáir því að Navalní muni á endanum ná sér. „Navalní verður að vera þolinmóður, en að endingu ætti hann að ná heilsu,“ sagði Mirzajanov. Hann býst við því að batinn muni taka upp undir eitt ár. 

Þá segir hann líklegast að Navalní hafi komist í snertingu við eitrið gegnum munninn, þar sem hann virðist ekki hafa smitað aðra. Þetta er í mótsögn við það sem annar vísindamaður, Vladimir Uglev, hefur sagt en hann hélt því fram að bataferli Navalnís benti til þess að eitrið hefði aðeins komið við húð hans.

Veit ekkert um líffræðileg áhrif

Annar rússneskur vísindamaður, Leonid Rink, var til viðtals á ríkissjónvarpsstöðinni RIA Nostovi. Þar gróf hann undan Mirzjanov og sagði að hann hefði í raun ekki komið nálægt þróun taugaeitursins novichok. Mirzajanov hefði verið „óbreyttur efnafræðingur“ þótt hann hefði unnið á sömu rannsóknarstofu og efnið var þróað. Því gæti Mirzjanov ekki vitað um líffræðileg áhrif eitursins.

Heldur Rink því fram að novichok-eitrið hafi ekki verið notað á Navalní. „Hann hefði ekki lifað af ef novichok hefði verið notað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert