Breskur lögreglumaður skotinn til bana

Lögreglumenn að störfum í miðri Lundúnaborg í gærkvöldi.
Lögreglumenn að störfum í miðri Lundúnaborg í gærkvöldi. AFP

Breskur lögreglumaður var skotinn til bana í nótt.

Frá þessu greinir Scotland Yard. Lögreglumaður hefur ekki verið skotinn til bana við störf í landinu í meira en átta ár.

Hefur lögreglan þegar hafið morðrannsókn en að verki var 23 ára karlmaður sem lögregla var að taka haldi í Suður-Lundúnum þegar hann hleypti skoti af byssu sinni.

Alla jafna ekki vopnaðir

Sá var einnig fluttur á sjúkrahús, særður eftir byssuskot og með lífshættulega áverka. Lögregla hefur ekki gefið upp hvernig hann hlaut áverkana, lögregla hafi ekki hleypt af byssum sínum, en dagblaðið Evening Standard segir manninn hafa skotið sjálfan sig.

Breskir lögreglumenn eru alla jafna ekki vopnaðir byssum. Þó eru til staðar sérstakar vopnaðar sveitir til að bregðast skjótt við sé þeirra þörf. Einnig er sjaldgæft að breskir lögreglumenn látist við störf sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert