Umdeilt frumvarp um innri markað samþykkt

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands. AFP

Breska þingið samþykkti í dag frumvarp ríkisstjórnarinnar um „Breska innri markaðinn“ með 340 atkvæðum gegn 256. Frumvarpið gengur nú til lávarðadeildar þingsins en talið er að það verði að lögum á næstu vikum.

Í frumvarpinu er kveðið á um stjórn á „innri markaði Breta“ eftir að Bretland gengur úr innri markaði Evrópusambandsins um áramót. Lögunum er ætlað að tryggja að viðskipti með vörur og þjónustu geti gengið snurðulaust milli Englands, Skotlands, Wales og Norður-Írlands og leggur meðal annars bann við að heimastjórnir landanna fjögurra setji lög sem hindra flæði vara þeirra á milli.

Brjóta gegn útgöngusamningi Breta

Þá eru ráðherrum gefin völd til að „nema úr gildi“ ákvæði sem samið var um í útgöngusáttmála Breta og Evrópusambandsins, en þar var kveðið á um að reglur Evrópusambandsins skyldu enn gilda um framleiðslu á Norður-Írlandi; reglur sem settar voru til að tryggja að ekki yrðu sett upp tollahlið á landamærum Írlands og Norður-Írlands.

Með lögunum er ráðherrum einnig gefin heimild til að veita fyrirtækjum eða einstaklingum styrki til framleiðlsu, sem gætu brotið gegn reglum útgöngusáttmálans um ríkisaðstoð.

Með þessu brjóta lögin gegn útgöngusamningi Breta við Evrópusambandið og þar með gegn alþjóðalögum. Allir fimm fyrrverandi forsætisráðherrar Bretlands hafa gagnrýnt frumvarpið, sem og fulltúar Evrópusambandsins.

Biden varað Breta við

Þá hefur Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata í Bandaríkjunum, varað bresk stjórnvöld við og sagt að hvers konar viðskiptasamningur Breta við Bandaríkin væri háður því að samkomulagið sem kennt er við föstudaginn langa verði virt, og landamæraeftirliti milli Írlands og Norður-Írlands verði ekki komið á.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að frumvarpinu sé aðeins ætlað að vera öryggisventill sem gæti nýst gegn mögulegum hótunum Evrópusambandsins um að leggja tolla á flutning vara til Norður-Írlands og jafnvel stoppa innflutning á tilteknum vörum þangað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert