Kreml, CIA og dúman

Alexei Navalní og Vladimín Pútín hafa lengi eldað grátt silfur.
Alexei Navalní og Vladimín Pútín hafa lengi eldað grátt silfur. AFP

Stjórnvöld í Rússlandi hafa brugðist ókvæða við ásökunum helsta stjórnarandstæðings landsins, Alexei Navalní, en hann sakar forseta landsins, Vladimír Pútín, um að bera ábyrgð á því að eitrað var fyrir honum. Segja þau leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA) vera í vitorði með Navalní og forseti neðri deildar rússneska þingsins (dúmunnar) segir ásakanir Navalní vera ósvífnar og að Pútín hafi bjargað lífi Navalnís. 

Vyacheslav Volodin segir aðPútín hafi bjargað lífiNavalnís líkt og allir aðrir sem komu að málinu eftir aðNavalní veiktist skyndilega um borð í flugvél í síðasta mánuði og var fluttur með hraði á sjúkrahús í Síberíu. „Navalní er ófyrirleitinn og illgjarn maður,“ sagði Volodin eftir að þýska blaðið Spiegel birti viðtal við stjórnarandstæðinginn í dag.

Alexei Navalní hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi í Berlín en …
Alexei Navalní hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi í Berlín en er enn staddur í borginni. AFP

Volodin segir að allir hafi reynt að bjarga lífi Navalnís, hvort sem það voru flugmenn, læknar eða Pútín. Aðeins óheiðarlegur maður gæti haldið slíkum fullyrðingum fram og vísar þar til ummæla Navalní um að hann teldi Pútín standa á bak við tilræðið. 

Í viðtalinu við Spiegel segist Navalní ætla að snúa aftur heim til Rússlands. Það hvarfli ekki að honum að gera Pútín það til geðs að vera áfram erlendis. Um er að ræða fyrsta viðtalið sem birt er við Navalní eftir að hann veiktist um borð í flugvélinni á leið frá Tomsk til Moskvu. Greining leiddi í ljós að taugaeitrið Novichok var notað við morðtilræðið. 

Talsmaður Pútíns, Dmitrí Peskov, sakar Navalní um að vinna með CIA og halda fram rökleysu og óásættanlegum fullyrðingum í garð Pútíns. Ekki sé fótur fyrir þeim og hann viti að CIA starfi með Navalní. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert