„Guð mun dæma um þetta“

Karlmaður kveikir á kerti í eyðilagðri dómkirkjunni.
Karlmaður kveikir á kerti í eyðilagðri dómkirkjunni. AFP

Sögulega mikilvæg dómkirkja í Nagorno-Karabakh héraði er verulega skemmd að innan og utan eftir það sem Armenar segja að hafi verið skotárás Asera á dómkirkjuna. Fleiri en 300 hafa fallið frá í átökum nágrannaþjóðanna vegna héraðsins sem hvor þjóð um sig telur vera sitt landsvæði. 

Átökin hafa skilið þúsundir eftir á vergangi síðan þau brutust út 27. september síðastliðinn. Bandaríkin, Rússland og Frakkland hafa undanfarið reynt að binda endi á átök þjóðanna. Fulltrúar ríkjanna þriggja hitta utanríkisráðherra Asera í dag. Utanríkisráðherra Armeníu mun hitta rússneska kollega sinn í Moskvu á mánudag. 

Kirkjan er mikið skemmd.
Kirkjan er mikið skemmd. AFP

Mikilvægur helgistaður

Nagorno-Karabakh er opinberlega hluti af Aserbaídsjan en því er stjórnað af Armenum. Átökin nú eru þau verstu sem hafa brotist út í áratugi. Hvor þjóð um sig hefur kennt hinni um ofbeldið. 

Ghazanchetsots dómkirkjan, sem Armenar segja Asera hafa ráðist á, er mikilvægur helgistaður armensku postulakirkjunnar. Hún er nú mikið skemmd eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi sem talskona utanríkisráðuneytis Armeníu birti á Twitter í dag.

„Engin herkænska hér“

Hluti þaks dómkirkjunnar er hruninn, grjótmulningur er á gólfi hennar og kirkjubekkjum hefur verið snúið við.

„Það er enginn her, engin herkænska hér, hvernig er hægt að setja skotmark sitt á kirkju? Dómkirkjan er Armenum afar mikilvæg. Guð mun dæma um þetta,“ sagði Simeon, íbúi í Nagorno-Karabakh, í samtali við fréttastoffu AFP. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert