Því miður ekki lengur frétt

Írski rithöfundurinn Edna O'Brien verður níræð í desember.
Írski rithöfundurinn Edna O'Brien verður níræð í desember. AFP

„Það tók svo sannarlega á að skrifa þessa bók. Það á svo sem við um allar mínar bækur en sérstaklega þessa fyrir þær sakir að ég þekkti ekki vel til og þurfti að kynna mér hvert einasta smáatriði – landafræðina, landslagið, stjórnmálin og umfram allt aðstæður stúlknanna, sem sumar hverjar voru enn í fjötrum. Aðrar hitti ég sem höfðu sloppið en voru hvergi nærri lausar undan áfallinu og þeim hryllilegu minningum sem hlutust af fangavistinni. Það voru þær sem léðu sögunni minni skriðþunga og hjartslátt.“

Þetta segir írski rithöfundurinn Edna O’Brien í samtali við Sunnudagsblaðið en skáldsaga hennar, Stúlka, sem kom út á frummálinu í fyrra, er nú einnig komin út í íslenskri þýðingu Ara Blöndals Eggertssonar. Hringaná gefur út.

O’Brien, sem verður níræð í desember, nýtur mikillar virðingar og hylli víða um heim. Bandaríski rithöfundurinn Philip heitinn Roth sagði á sínum tíma að hún væri hæfileikaríkasta konan sem nú skrifaði á enska tungu og Mary Robinson, fyrrverandi forseti Írlands, hefur sagt að O’Brien sé einn fremsti og mest skapandi rithöfundur sinnar kynslóðar.

O’Brien féllst góðfúslega á að svara fáeinum spurningum Sunnudagsblaðsins og fóru samskiptin fram gegnum tölvupóst, að beiðni umboðsmanns hennar ytra.

Neydd í hjónaband

Í Stúlku er hermt af Maryam, ungri stúlku sem rænt er af skæruliðum Boko Haram og hún neydd í hjónaband. Hún upplifir þjáningar og hrylling samfélags karlmanna sem láta stjórnast af trúarlegu ofbeldi. Maryam er eiginlega bara barn sem þarf að komast af sem kona með sitt eigið barn.

Þegar heimur hennar virðist algerlega fullur af brjálæði og stefna beint til helvítis opnast henni hlið inn í annan heim sem ekki er mikið skárri, erfiði og hryllingur í óblíðum óbyggðum Norðaustur-Nígeríu, í gegnum skóga og auðnir til staðar þar sem hennar sködduðu sál er mætt af blindri dómhörku samfélags í afneitun, að því er segir í kynningu útgefandans á bókarkápu.

Fjölskyldur og aðstandendur stúlkna sem liðsmenn Boko Haram rændu í …
Fjölskyldur og aðstandendur stúlkna sem liðsmenn Boko Haram rændu í bænum Chibok í Nígeríu komu saman í fyrra til að minnast þess að fimm ár voru liðin frá þeim hryllingi. AFP

Liðsmenn Boko Haram rændu 276 stúlkum í bænum Chibok í Nígeríu vorið 2014 og vakti málið heimsathygli. O’Brien er spurð að því hvort það mál sé kveikjan að Stúlku?

„Mér var þegar kunnugt um rán Boko Haram á stúlkum og konum í Nígeríu sem fluttu þær á hina ýmsu staði í Zambisa-skóginum, þar sem þær urðu skiptimynt í stríði með öllum þeim ósköpum sem því fylgir. Þær urðu fórnarlömb innrætingar, kynferðislegs ofbeldis og voru hnepptar í þrældóm.

Ránið á skólastúlkunum í Chibok beindi sjónum heimsins í ríkari mæli að þessu ástandi og kveikti í mörgum. Það varð til dæmis mikil vakning með myllumerkinu „stúlkurnar okkar heim“ og heimurinn leit upp úr amstri dagsins. En því miður er þetta ekki lengur frétt; bara hver önnur staðreynd um villimennsku í þessum heimi.“

Nánar er rætt við Ednu O'Brien í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »