Vetrartími í Evrópu

Sólarupprás við Genfarvatn í Sviss í vikunni.
Sólarupprás við Genfarvatn í Sviss í vikunni. AFP

Vetrartími tók gildi í Evrópu í nótt. Klukkan í nágrannaríkjum Íslands í Vestur-Evrópu er því klukkustund á undan klukkunni hér á landi (GMT+1) en ekki tveimur líkt og á sumrin. Þannig verður því háttað næstu 22 vikur, eða fram til 28. mars 2021.

Sumartíminn á rætur að rekja til fyrri heimsstyrjaldar, en samræmdar reglur hafa verið um hann innan Evrópusambandsins frá árinu 1981. Fjöldi Evrópulanda utan sambandsins fylgir einnig reglunum og er Ísland raunar eitt fimm Evrópulanda án sumar- og vetrartíma. Hin eru Rússland, Georgía, Hvíta-Rússland og Tyrkland.

Árið 2018 samþykkti Evrópuþingið að frumkvæði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að hringli milli sumar- og vetrartíma skyldi hætt. Áður höfðu 84% af 4,6 milljónum þátttakenda í samráðsgátt Evrópusambandsins sagst styðja breytinguna.

Gert var ráð fyrir að breytingin tæki gildi haustið 2021 og hvert ríki ákvæði áður hvort það hygðist halda sig til frambúðar við núverandi vetrartíma eða sumartíma, en sá síðarnefndi er þegar í gildi meirihluta árs. Ljóst er þó að ríkin munu reyna að samræma ákvörðunina enda lítil stemning fyrir því að nágrannaríki fari ólíkar leiðir.

Ef haldið yrði fast í upphaflega tímaáætlun hefði í nótt verið síðasta skiptið sem vetrartími tæki gildi í Evrópu. Endanleg ákvörðun um afnám sumar- og vetrartíma er þó í höndum ráðherraráðs Evrópusambandsins og þaðan hefur ekkert heyrst þessu tengt um hríð.

Í ljósi þess að talsverðan fyrirvara þarf til að gefa svo útfærslan geti gengið snurðulaust fyrir sig, hægt sé að uppfæra öll tölvukerfi og fleira, má telja ólíklegt að afnám klukkubreytinganna geti farið fram næsta haust. Tíminn vinnur í það minnsta ekki með evrópskum ráðamönnum.

mbl.is